*

mánudagur, 18. mars 2019
Innlent 30. september 2015 10:19

FoodCo hagnaðist um 144 milljónir

FoodCo, sem rekur 20 veitingastaði undir 7 vörumerkjum, velti 3,5 milljörðum króna á síðasta ári.

Ritstjórn
Aðsend mynd

FoodCo, sem starfrækir tuttugu veitingastaði undir sjö vörumerkjum, hagnaðist um 144 milljónir króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Velta fyrirtækisins nam 3,5 milljörðum króna á árinu og jókst hún um 7% á milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 355 milljónum króna samanborið við 224 milljónir króna ári fyrr, og jókst hann því um 58% á milli ára.

Eigið fé í árslok nam 1,2 milljörðum króna og var eiginfjárhlutfallið 66%. Vaxtaberandi skuldir námu 45 milljónum króna.

Veltumesta árið frá stofnun

Jóhann Þórarinsson, forstjóri FoodCo, segir að árið hafi verið í takti við væntingar og jafnframt það veltumesta frá stofnun. 

„Aukin einkaneysla og mikil fjölgun ferðamanna er að skila sér í aukinni veltu inná stöðunum og stefnan er sú að vaxa ennfrekar í framtíðinni enda eru skilyrði til vaxtar afar góð um þessar mundir og mjög jákvæðar horfur á veitingamarkaðnum ef horft er til næstu 3-5 ára,“ segir Jóhann.

FoodCo á og rekur veitingastaðina Aktu taktu, Eldsmiðjuna, Greifann, Saffran, Pítuna, American Style og Roadhouse. Um 500 manns vinna á veitingastöðum fyrirtækisins víða um land.