Hjónin Guðmundur Viðarsson og Mjöll Daníelsdóttir sem hafa rekið Kaffivagninn síðastliðin þrjú ár hafa selt reksturinn ásamt fasteign til FoodCo hf. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Kaffivagninn er elsti starfandi veitingastaður landsins en hann var stofnaður árið 1935 og var í upphafi vörubíll með yfirbyggðum palli sem stóð á Ellingsenplaninu á horni Pósthússtrætis og Tryggvagötu.

í byrjun sjötta áratugar tuttugustu aldar fluttist Kaffivagninn vestur á Grandagarð í formi lítils húss á steinhjólum sem tók tíu til fimmtán gesti í sæti. Á þeim tíma var Reykjavík stærsta verstöð landsins og opnaði Kaffivagninn eldsnemma á morgnana og iljaði hafnarverkamönnum með rjúkandi kaffi og bakkelsi ásamt því að brauðfæða trillukarla.

Hús Kaffivagnsins hefur verið í núverandi mynd frá árinu 1975 og síðla sumars 2014 var byggður útipallur við austurgafl hússins með útsýni yfir höfnina og Hörpu. „Rekstri Kaffivagnsins verður haldið áfram með óbreyttu sniði og lögð verður áhersla á að varðveita þá sögu og sjarma sem fylgt hefur staðnum í gegnum árin,“ segir í fréttatilkynningu frá FoodCo.