Á næstunni verður mál tekið fyrir í Hæstarétti sem gæti haft hamlandi áhrif á starfsemi Airbnb á Íslandi. Dómurinn mun taka afstöðu til þess hvort þeim sem leigja út íbúðir á Airbnb í fjölbýlishúsum beri að fá samþykki húsfélags fyrir útleigunni. Málið verður tekið fyrir á miðvikudaginn næsta í Hæstarétti að því er kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins um málið.

Síðastliðinn apríl féll dómur héraðsdóms á þá leið að hjónum sem voru með þrjár íbúðir í útleigu í Skuggahverfi við Vatnsstíg bæri að fá samþykki frá íbúum í öllum íbúðum húsanna fyrir leigunni. Alls voru íbúðirnar ríflega sjötíu talsins. Haft er eftir Valtý Sigurðssyni, lögmanni sem fer með mál hjónanna að málið sé mjög fordæmisgefandi. „Það er tekist á um hvort um sé að ræða atvinnustarfsemi í skilningi laganna,“ segir Valtýr. Hann segir að verði húsfélaginu dæmt í vil komi málið til að hafa áhrif á heimild Airbnb-gestgjafa til útleigu á íbúðum sínum í fjölbýlishúsum.