Theódóra Þorsteinsdóttir er formaður bæjarráðs í Kópavogi og situr í bæjarstjórn fyrir Bjarta framtíð. Hún var á árunum fyrir hrun eigandi fyrirtækisins Kraninn ehf., ásamt eiginmanni sínum, en fyrirtækið átti, rak og leigði út vöru-, krana- og körfubíla. Hún segir að fyrirtæki hennar hafi verið ranglega keyrt í gjaldþrot vegna ólöglegra gengislána og meintra mistaka SP-fjármögnunar.

Kraninn ehf. var með erlend gengislán sem hækkuðu gríðarlega við upphaf fjármálakreppunnar árið 2008. Theódóra segir a þrátt fyrir að reksturinn hafi gengið vel þá hafi hann ekki staðið undir mikilli hækkun afborgana. Upphafleg lán voru tekin hjá SP-Fjármögnun félagið var í meirihlutaeigu Landsbankans frá 2002 og bankinn átti félagið að fullu frá árinu 2009. Landsbankinn og SP-Fjármögnun sameinuðust svo árið 2011.

„Þegar allt hrundi þá var staðan þannig að það var ekki hægt að borga af þessum lánum, afborganirnar hlupu á hundruðum þúsunda og þrátt fyrir að við værum með tækin í mikilli vinnu þá var rekstrargrundvöllur okkar, eins og annarra í sömu stöðu brostinn. Við vorum líka alltaf að bíða eftir því að eitthvað yrði gert, en þarna var þetta komið inn í umræðuna að þetta væru mögulega ólöglegir samningar. Fyrirtækið var síðan úrskurðað gjaldþrota árið 2010, örfáum dögum áður en fyrsti dómurinn féll,“ segir Theódóra.

Staða búsins varð jákvæð

Theódóra segir að lánin hafi að lokum verið endureiknuð en skiptastjórinn fékk fyrst útreikning frá bankanum sem var upp á 12,5 milljóna króna eign. Eignir búsins fóru þá úr því að vera neikvæðar um sem nemur 45 millj­ónum í því að vera jákvæðar upp á 12,5 milljónir.

Theódóra segir að seinna hafi komið bréf frá bankanum þar sem segir að í mars 2011 hafi endurútreikningurinn, upp á 12,1 milljónir verið greiddur út. Skiptastjóri kannaðist ekki við þetta og þegar bankinn skoðaði þetta nánar þá kom í ljós að svo hafði alls ekki verið. Það myndaðist einungis inneign en engum var gert viðvart um hana. Í bréfi sem sent var frá Landsbankanum til skiptastjóra búsins um miðjan nóvember 2015 segir:

„Við nánari skoðun á útreikningum SP-Fjármögnunar og útborgunum í kjölfarið, hefur komið í ljós að inneign sem myndaðist við útreikninginn á lánum þrotabúsins 2011, var ekki greidd út. Kraninn ehf. var úrskurðaður gjaldþrota 10.06.2010. Félagið var því undir skiptum þegar SP-Fjármögnun leiðrétti lánin. Vegna mistaka SP-Fjármögnunar var inneignin ekki greidd út. Skiptum á þrotabúinu lauk 03.05.2011.“

Samtals fengu þau um 24 millj­ónir út úr tvennum endurútreikningum. „Tjónið okkar er hins vegar miklu meira,“ segir Theódóra. „Við töpuðum rekstrinum, launum okkar um tíma, hagnaði af rekstrinum, viðskiptavild og tækjunum. Þrátt fyrir endurgreiðsluna þá erum við langt frá því að vera eins sett og áður.“

Theódóra skoðar nú möguleika á að höfða skaðabótamál gagnvart bankanum vegna þess tjóns sem hún varð fyrir og hvetur eigendur fyrirtækja sem rekin voru í þrot á grundvelli ólögmætra gengislána að skoða sína stöðu og það hvernig farið hefur verið með þeirra mál innan bankakerfisins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .

Vegna viðtals Viðskiptablaðsins við Theódóru vill Landsbankinn koma eftirfarandi á framfæri: Hvorki Landsbankinn né dótturfélag hans, SP-Fjármögnun, óskuðu eftir gjaldþrotaskiptum á búi Kranans. Eins og fram kemur í dómabók Héraðsdóms Reykjaness var félagið tekið til gjaldþrotaskipta 10. júní 2010, að kröfu sýslumannsins í Kópavogi. Þá hafnar Landsbankinn því að hann sé bótaskyldur gagnvart félaginu eða þrotabúinu.