Guðbrandur Einarsson hefur sagt af sér sem formaður Landssambands íslenskra verslunarmanna eftir sex ár í starfi og 21 árs vinnu fyrir félagið. Ástæðan er sögð vera skoðanamunur milli hans og Ragnars Þórs Ingólfssonar og annarra forystumanna VR.

Í yfirlýsingu frá Guðbrandi segir að í kjölfar sameiningar Verzlunarmannafélags Suðurnesja, sem hann er jafnframt formaður fyrir, við VR þann 1. apríl og þar með yfirfærslu samningsumboðsins yfir til VR muni hann ekki þiggja starf hjá VR áfram.

„Þá er sú staða uppi að LÍV og VR hafa ekki átt samleið við gerð kjarasamnings, þrátt fyrir að hafa lagt fram sameiginlega kröfugerð. Verulegur meiningarmunur er á milli mín og forsvarsmanna VR með hvaða hætti skuli nálgast kjarasamningsgerð og þar sem ég hef ákveðið að þiggja ekki starf hjá VR, þrátt fyrir boð þar um, tel ég eðlilegt að ég stigi úr stóli formanns Landssambands íslenskra verslunarmanna á þessum tímapunkti," segir Guðbrandur.

„Ég er fullur þakklætis fyrir þann tíma sem ég hef setið í stjórn LÍV sem nú telur tvo áratugi og kveð þennan vettvang fullur auðmýktar. Ég vil óska stjórn LÍV velfarnaðar í störfum sínum fyrir íslenskt launafólk og þakka þeim einstaklingum sem ég hef fengið að vinna með á þessum vettvangi fyrir einstök og góð kynni," segir Guðbrandur.

LÍV hefur verið í samfloti með Starfsgreinasambandinu í kjaraviðræðum. VR hefur hins vegar verið í samfloti með, Eflingu og Verkalýðsfélögum Akraness og Grindavíkur. Framsýn bættist svo í þann hóp í gær.