*

föstudagur, 22. september 2017
Innlent 8. maí 2012 18:57

Formaður SI: Fólk vill kjósa um aðild að ESB

Svana Helen Björnsdóttir segir mikið um rangfærslur í umræðunni um mögulega aðild Ísland að Evrópusambandinu.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Axel Jón Fjeldsted

Umræðan um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu er oft mjög ómálefnaleg og mikið um rangfærslur sem gerir það að verkum að felstum reynist erfitt að átta sig á staðreyndum málsins, að mati Svönu Helen Björnsdóttur, formanns Samtaka iðnaðarins. 

Svana skrifar um aðildarviðræðurnar í Íslenskum iðnaði, fréttabréf Samtaka iðnaðarins. 

Hún skrifar:

„Eftir að Alþingi ákvað að sækja um aðild og viðræður hófust, er hafið ákveðið úrvinnsluferli sem á að skila þjóðinni aðildarsamningi. Alir sem að þessu ferli koma þurfa að leggja sig fram um að niðurstaðan verði sem hagstæðust, hvort sem viðkomandi er með aðild, á móti eða óákveðinn.“

Flestir innan SI andvígir aðild að ESB

Í niðurstöðum skoðanakönnunar sem gerð var á meðal félagsmanna Samtaka iðnaðarins og birt var í enda mars kemur m.a. fram að mjög skiptar skoðanir eru um það hvort draga eigi umsókn um aðild að Evrópusambandinu tilbaka. Um það bil jafn margir voru fylgjandi og andvígir. Mun fleiri eru hlynntir því að ljúka aðildarviðræðum (44%) en voru hlynntir aðild að Evrópusambandinu (27%). Tæplega 59% félagsmanna eru andvígir Evrópusambandsaðild og hafði þeim fjölgað um rúm 19 prósentustig frá árinu 2007.

Þá kom fram í niðurstöðum könnunarinnar að tæp 69% félagsmanna myndu kjósa á móti ef Evrópusambandsaðild væri borin undir þjóðaratkvæði. Þá hafði viðhorf félagsmanna til upptöku evru ekki áður mælst jafn neikvætt; um 36% hlynnt og 45% andvíg.

Fagleg og öfgalaus umræða er mikilvæg

„Fólk treystir því að fá að greiða atkvæði um samninginn þegar þar að kemur. Það er ólíklegt að sátt náist meðal þjóðarinnar ef aðildarviðræður verða stöðvaðar eða að þeim staðið með ófaglegum hætti,“ skrifar Svana í grein sinni og leggur áherslu á að Samtök iðnaðarins beiti sér fyrir því að umræða um Evrópumálin séu fagleg og öfgalaus. Þá segir hún að vanda þurfi alla vinnu og gefa henni þann tíma sem nauðsyn krefur til að sátt verði um málin og sem hagstæðastar niðurstöður fáist í aðildarviðræðunum.