Davíð Þorláksson
Davíð Þorláksson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Viðbrögðin hafa verið gríðarlega mikil og að mestu leyti jákvæð. Ég bjóst ekki við svona miklum hljómgrunni. Ég hef fengið jákvæð viðbrögð frá sjálfstæðismönnum. Það hefur komið skemmtilega á óvart. En svo er fullt af vinstri mönnum sem hafa líka tekið málið upp þótt það hafi ekki verið ætlunin,“ segir Davíð Þorláksson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS). Hann gagnrýndi stóriðjustefnuna hér á landi og sagði hana blöndu af áætlunarbúskap og kjördæmapoti í grein sem birtist eftir hann í Morgunblaðinu í dag.

Í greinni varaði Davíð m.a. við áætlunum Landsvirkjunar um auknar fjárfestingar á næstu tíu árum enda gætu þær ef út af brygði lent á herðum skattgreiðenda. Hann sagði því mikilvægt að ríkissjóður gangist ekki í ábyrgð fyrir þeim. „Þetta gæti orðið næsta Icesave,“ segir hann í samtali við vb.is. Hugmyndirnar sem Davíð viðrar í greininni segir hann svipa til ályktunar SUS fyrir um ári þar sem varað var við stækkunaráformum Landsvirkjunar enda þær á ábyrgð skattgreiðenda eins og önnur fyrirtæki í eigu hins opinbera.

Telur bæði hægri- og vinstrimenn á rangri leið

„Ég hef alltaf stutt atvinnulífið og uppbyggingu þar. Og einhvern vegin var maður fastur í þeirri meinloku að styðja stóriðjuna líka. Þegar ég fór að ræða við hagfræðinga um þessa hluti þá fór ég að átta mig á því að ég gat ekki verið samkvæmur sjálfum mér ef ég ætlaði að styðja stóriðjuna. Þá fór ég að skoða þetta betur,“ segir hann.

„Margir hægri menn eru á rangri leið í stuðningi sínum við stóriðjuna. En margir vinstri menn líka í andstöðu sinni gegn markaðsöflunum,“ segir hann og bendir á að umræðan um virkjun og stóriðju á vegum hins opinbera hér á landi sé á villugötum. Tilgangslaust sé að taka umræðuna út frá umhverfissjónarmiðum eins og sumir geri.

„Ég held að stærsta umhverfisstefnan sé kapítalismi. Ef ríkið hættir að niðurgreiða stóriðjuna þá verður minna af henni. Og ef orkufyrirtækin eru í eigu einkaaðila þá verður arðsemiskrafan hærri og minna virkjað,“ segir Davíð Þorláksson.