Í kjölfar vaxtaákvörðunar peningastefnunefndar var Már Guðmundsson seðlabankastjóri spurður hvort bankinn teldi jafnmiklar líkur á að stýrivextir verði hækkaðir eða lækkaðir á næsta stýrivaxtaákvörðunarfundi peningastefnunefndar.

„Okkar leiðbeining er samhverf, því auðvitað geta komið nýir hnykkir," sagði Már og vísaði einnig í að yfirskot gæti orðið á gengi krónunnar.

„En það eru líka sterkar vísbendingar um að raunvextir hafi lækkað, svo það þurfi ekki jafnháa vexti til að halda í verðbólgumarkmið.“

Már segir þó mögulegt að vextir lækki til lengri tíma litið. „Ef gengið er lítið að gefa eftir," segir Már og vísar í það sem gerist nú á markaði í kjölfar afnáms gjaldeyrishafta.

„Þá aukast líkurnar á því að við höldum áfram að þreifa okkur áfram um hvar þessir vextir eiga að vera, og því sem verðbólguvæntingarnar festast betur í sessi og óvissan í íslensku efnahagslífi minnkar, þá verða forsendur fyrir því að bæði raun- og nafnvextir sígi niður.

En það verður að vera sígandi lukka, við megum ekki taka séns á verðbólgustöðugleika með stórum tveggja til þriggja prósenta lækkunarskrefum.“