Stjórnarskrárdómstóll Austurríkis hefur ógilt niðurstöður forsetakosninga þar sem frambjóðandi hins öfgasinnaða Frelsisflokks tapaði naumlega.

Munaði 31 þúsund atkvæðum

Úrskurður dómstólsins kemur rétt viku áður en sverja átti inn í embættið Alexander Van der Bellen, sem studdur var af Græningjum. Vann hann kosningarnar með 30.863 atkvæðum gegn Norbert Hofer, frambjóðanda Frelsisflokksins.

Frelsisflokkurinn hefur lengi barist gegn komu innflytjenda til landsins og á rætur sínar í hreyfingu þeirra sem vildu að Austurríki héldist hluti af sameinuðu Þýskalandi eftir seinni heimsstyrjöldina. Frelsisflokkurinn hafði kært kosningarnar á þeirri forsendu að í 94 af 117 kjördæmum hefðu verið brot á kosningalögum.

Formgallar á 78 þúsund atkvæðum

Rannsóknin sem sett var af stað í kjölfarið sýndi engin merki um að reynt hefði verið að svindla í kosningunum, en formgallar hefðu verið á 77.926 atkvæðum, sem hefði verið nóg til að breyta niðurstöðum kosninganna. Fólst það meðal annars í því að í sumum kjördæmum hefði verið byrjað að telja póstatkvæði að kvöldi kjördags, en í kosningalögum er ætlast til þess að það sé ekki gert fyrr en daginn eftir.

„Jafnvel í stöðugu lýðræði væri einungis alger framfylgni á kosningalöggjöf til þess fallinn að tryggja traust borgaranna á lýðræðinu,“ sagði Gerhart Holzinger, forseti dómstólsins.