Í dag, fyrsta mánudaginn eftir annan miðvikudag í desember, eins og segir í reglunum, koma kjörmenn hvers ríkis í Bandaríkjunum saman og formlega velja nýjan forseta landsins.

Þótt kosningabaráttan fyrir forsetakosningarnar sem haldnar voru 8. nóvember síðastliðinn hafi verið fyrst og fremst á milli forsetaframbjóðenda stóru flokkanna tveggja í landinu, þeirra Hillary Clinton og Donald Trump, var í raun verið að kjósa um svokallaða kjörmenn hvers fylkis.

Þarf stuðning 270 af 538 kjörmönnum

Það eru svo þessir kjörmenn sem síðan kjósa forsetann, en forseti þarf að tryggja sér stuðning 270 kjörmanna af 538 til að vera formlega settur í embættið.

Kerfið í Bandaríkjunum er þó þannig að ef enginn frambjóðandi fær stuðning 270 kjörmanna mun fulltrúadeildin kjósa forsetann, en í dag eru Repúblikanar með meirihluta í henni.

Repúblikanar eru með 306 kjörmenn

Trump vann hins vegar 306 kjörmenn frá þrjátíu fylkjum en heildarfjöldi kjörmanna er jafn fjölda þingmanna í báðum deildum þingsins, en í þeirri efri, öldungadeildinni, eru 2 þingmenn frá hverju fylki, óháð íbúafjölda, samtals 100 þingmenn.

Þónokkrir kjörmenn hafa lýst því yfir að þeir hyggist ekki kjósa þann fulltrúa sem þeir eru fulltrúar fyrir, en í gegnum söguna hafa einungis 9 kjörmenn ekki kosið sitt forsetaefni. Fjölmörg fylki beinlínis skylda kjörmenn sína til að kjósa eftir úrslitum þess fylkis.

Fleiri en 37 kjörmenn Repúblikana þyrftu að færa atkvæði sitt frá Trump til Clinton til að breyta úrslitum kosninganna.