Forstjórar og forstöðumenn ríkisstofnana telja kjararáð hafa brotið lög og íhuga málshöfðun á hendur ríkinu vegna þessa. Kjararáð ákvað þremur dögum fyrir jól að afturkalla launalækkun þessa hóps og miða við október síðastliðinn. Forstjórar og forstöðumenn ríkisstofnana vilja hins vegar að miða eigi afturköllunina við 1. desember í fyrra, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Forstjórar og forstöðumenn hafa jafnframt kvartað vegna þessa til umboðsmanns Alþingis og bíða þeir niðurstöðu hans.

Magnús Guðmundsson, formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana, segir í samtali við blaðið ríkisforstjórana vilja að að afturköllun launalækkunar gildi frá 1. desember 2010, samkvæmt ákvæði laga um lækkunina sem átti að vera tímabundin í tvö ár, en ekki aftur til 1. október sl. eins og kjararáð ákvað fyrir jól.

Ríkisforstjórar eru um 200.