Antony Jenkins, forstjóri Barclays bankans, var rekinn í gær eftir að hafa tekist á við stjórn fyrirtækisins um kostnaðaraðhald, að því er segir í frétt BBC.

Þar segir að stjórnarmenn hafi viljað ganga lengra í niðurskurði í rekstri bankans, en Jenkins var tilbúinn að gera. „Það sem við þurfum er meiri hagnaður. Barclays er ekki hagkvæmur. Við erum klunnalegir,“ segir John McFarlane, stjórnarformaður bankans.

Jenkins hefur verið forstjóri Barclays frá árinu 2012 og er leit hafin af eftirmanni hans. McFarlane mun gegna skyldum forstjóra þar til nýr forstjóri er fundinn.

McFarlane útilokar ekki að gripið verði til uppsagna og lokana á útibúum. Þá muni Barclays ekki endurnýja styrktarsamning sinn við ensku úrvalsdeildina í knattspyrnu, sem rennur út síðar á þessu ári.