Marck Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook, virðist fyrirhyggjusamur en hann nýtti lágt vaxtastig vestanhafs á dögunum og endurfjármagnaði 5,95 milljóna dala fasteignalán sem hvíldi á húsi hans í Palo Alto í Kaliforníu. Lánið jafngildir tæpum 560 milljónum íslenskra króna.

Bloomberg-fréttaveitan fjallar um málið í dag. Nýja lánið er til 30 ára með 1,05% breytilegum vöxtum. Bent er á það í umfjölluninni að vaxtastig í Bandaríkjunum sé með því lægsta sem sést hafi og hagstætt að taka lán með breytilegum vöxtum. Slík lán séu einkar hagstæð fyrir fólk á borð við Zuckerberg, sem hafi efni á að ráða við þyngri greiðslubyrði þegar og ef vextir hækka. Bloomberg hefur eftir fjármálasérfræðingi, að ólíklegt sé að vextir hækki í bráð þar sem bandaríski seðlabankinn hafi gefið það út að stýrivöxtum verði haldið lágum a.m.k. næstu tvö árin.

Zuckerberg, sem er 28 ára, er með auðugustu einstaklingum í heimi en ríkidæmi hans er metið á 15,7 milljarða dala, jafnvirði rétt um tvö þúsund milljarða íslenskra króna. Auður hans er að nær öllu leyti bundinn í hlutabréfum Facebook, sem var skráð á hlutabréfamarkað í maí síðastliðnum. Hann keypti húsið í Palo Alto í mars í fyrra.