*

föstudagur, 20. október 2017
Innlent 7. ágúst 2012 11:12

Forstjóri Hörpu liggur yfir áætlanagerð

Halldór Guðmundsson telur áætlanir um rekstur tónlistar- og ráðstefnuhúsa sjaldan hafa staðist fyrsta kastið.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Birgir Ísl. Gunnarsson

„Ég held að það hafi aldrei nokkurn tíma gerst þar sem svona hús hafa verið opnuð að áætlanir hafi staðist fyrsta árið,“n segir Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, um úttekt KPMG á rekstri ráðstefnu- og tónlistarhússins. Fram kemur í úttektinni að fimm veruleg frávik er að finna í núverandi rekstraráætlun hússins frá þeim áætlunum sem lágu til grundvallar þegar íslenska ríkið og Reykjavíkurborg ákváðu að taka yfir það eftir bankahrun. 

Fréttablaðið fjallar um útttektina í dag. Í henni kemur m.a. fram að halli verði á rekstri Hörpunnar á þessu ári og líklegt að sú verði raunin næstu árin. Gert er ráð fyrir að tekjur Hörpu verði 723 milljónir króna á þessu ári og eru helstu liðir undir áætlunum. Rekstrargjöld eru hins vegar 1.130 milljónir króna og rekstartapið því 407 milljónir króna. Fram kemur í Fréttablaðinu að tölurnar ná einungis til reksturs Hörpu. Ekki er tekið tillit til greiðsluframlags eigenda sem notað er til að greiða af lánum. Ríkissjóður og Reykjavíkurborg eru skuldbundin til greiðslu slíks framlags til Hörpu í 35 ár. Áætlað er að framlagið, sem er verðtryggt, verði samtals 983 milljarðar króna á árinu 2012.

Af einstökum liðum í skýrslunni segir að tekjur af ráðstefnum hafi verið mun lægri en í yfirtökuáætluninni. 

Halldór tók við forstjórastarfinu nú um mánaðamótin. Hann segir starf sitt m.a. felast í því að leggja fram áætlun um rekstur Hörpu og vinnur hann nú að því ásamt starfsfólki tónlistar- og ráðstefnuhússins og KPMG. Hann bendir á að margt hafi breyst til hins betra frá því úttekt KPMG var gerð í vor. Ráðstefnuáætlanir á fyrri hluta árs hafi t.d. verið á áætlun. 

„Á síðasta ári var húsið opnað hálfkarað í kappi við tímann. Það verður að gæta örlítillar sanngirni í því í garð þeirra sem að þessu stóðu. Ég hef mjög einfalda sýn. Ég ætla mér að fara langt með mína áætlanagerð, helst til nokkurra ára, fyrir lok ágúst. Fram að því ætla ég ekki að setja fram neinar tölur eða aðra hluti gagnvart leigjendum og öðrum rekstraraðilum í húsinu. Mér finnst það ekki skynsamlegt. Þegar þær liggja fyrir munum við gera eigendum og aðalleigendum, þjóðinni sjálfri, fyrir okkar sýn," segir Halldór Guðmundsson.