Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1, var með 19,4 milljónir króna í laun og hlunnindi í fyrra, en hafa ber í huga að hann tók við forstjórastarfinu 11. júlí í fyrra. Ef deilt er í heildartöluna með þeim sex mánuðum sem hann vann hjá fyrirtækinu í fyrra fást út 3,2 milljóna króna mánaðarlaun.

Árið 2011 var forveri hans í starfi, Hermann Guðmundsson, með 33,6 milljónir króna í árslaun, eða um 2,8 milljónir króna. Reyndar voru launagreiðslur til Hermanns hærri í fyrr en árið 2011 þrátt fyrir að hann hafi hætt störfum 11. júlí, en starfslokasamningur við Hermann skýrir þetta væntanlega. Í fyrra fékk Hermann 39,8 milljónir króna, sem gerir um 6,6 milljónir króna fyrir hvern þeirra sex mánaða sem Hermann vann hjá fyrirtækinu.

Eins og áður segir var skipt um forstjóra á miðju ári hjá fyrirtækinu og þar sem ekki er vitað nákvæmlega hvernig starfslokasamningur Hermanns eða ráðningarsamningur Eggerts líta út ber að taka tölum um mánaðarlaun með ákveðnum fyrirvara. Árslaun þeirra beggja koma þó fram í ársreikningi N1.

Fjórir framkvæmdastjórar N1 voru með 84,1 milljón króna samtals í árslaun í fyrra, en árið 2011 nam þessi tala um 77,7 milljónum. Þetta þýðir að þeir hafa verið með um 1,75 milljónir króna í mánaðarlaun að meðaltali.

Stjórnarformaður fyrirtækisins, Margrét Guðmundsdóttir, var með 4,8 milljónir króna í árslaun í fyrra eða um 400.000 krónur á mánuði.