Lífeyrissjóðirnir þurfa að gera miklar arðsemiskröfur til N1 og geta varla sætt sig við að sterk fjárhagsstaða félagsins verði notuð til að lækka olíuverð. Þetta segir Einar Benediktsson, forstjóri Olís.

Einar Benediktsson
Einar Benediktsson

Í viðtali Viðskiptablaðsins við Hermann Guðmundsson, fyrrverandi forstjóra N1, sagði að félagið hefði getað lækkað bensínverð vegna mikil fjárhagsstyrks. Það hafi hins vegar ekki verið gert af tillitssemi við hin olíufélögin, sem væru mjög skuldsett.

Einar skrifar grein um málið í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag og vísar ummælum Hermanns á bug. Einar bendir m.a. á að N1 hafi verið öflugt félag en eigendur þess tekist að reka það í þrot á fjórum árum með mikilli skuldsetningu.

„Vissulega óx N1 hratt á árunum 2006 til 2009, en það er lítil rekstrarsnilld að vaxa með skuldsetningu, sem lánardrottnar neyðast svo til að afskrifa,“ skrifar Einar og rifjar upp að lánardrottnar hafi bæði þurft að afskrifa og breyta í hlutafé a.m.k. 34 milljörðum af skuldum N1 og fasteignafélagsins Umtaks. Á sama tíma sé á huldu hvað lánardrottnar hafi tapað miklu á BNT, móðurfélagi N1. Hann segir áhugavert að kanna tengsl og viðskipti BNT við Glitni fyrir hrun.

Eina telur ennfremur að N1 hafi ekki staðið undir væntingum þeirra fjárfesta sem breytt hafi skuldum N1 og tengdra félaga á sínum tíma. Hann skrifar:

„Kaup Framtakssjóðsins á hlut Arion banka í félaginu fóru fram á genginu 11 aðeins nokkrum mánuðum eftir að félagið var endurreist á genginu 14. Þannig lækkaði verðmæti N1 um 3 milljarða, eða rúmlega 20%, nokkrum mánuðum eftir endurreisn þess.“

Grein Einars Benediktssonar birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast hana í heild sinni í blaðinu hér að ofan undir liðnum Tölublöð.