Það vakti mikla athygli í Indlandi þegar ég tók við sem forstjóri þessa stóra fyrirtækis og það vildu allir óska mér og móður minni til hamingju. Þetta sagði Inda Nooyi, forstjóri PepsiCo, sem hélt fyrirlestur á hátíðarfundi Ölgerðarinnar í morgun.

Nooyi sagðist hafa heimsótt móður sína í Indlandi eftir að hún varð forstjóri og móðir hennar sagði henni að hún myndi búa hjá sér. „Þegar foreldrar í Indlandi segja eitthvað, þá hlýðir maður“, sagði Nooyi. Móðir Nooyi vakti hana svo snemma morguns og bað hana um að klæða sig. „Ég sagði henni að ég ætlaði ekki á fætur svona snemma, ég væri í fríi.“ Móðir hennar tók það ekki í mál og sagði henni að klæða sig því það væri von á gestum.

Fljótlega fylltist húsið af nágrönnum og fjarskyldum ættingjum sem óskuðu Nooyi til hamingju með starfið. Hinsvegar hafi gestirnir aðallega vera komnir til að óska móður hennar til hamingju með að hafa alið hana svona vel upp og komið henni svona langt áfram í lífinu. „Ég áttaði mig þá á því að ég var eingöngu þarna sem eitthvað gluggaskraut fyrir móður mína“, sagði Nooyi og hló.

Nooyi tók við sem forstjóri PepsiCo árið 2006 en áður hafði hún meðal annars starfað hjá Motorolla og Boston Consultin Goup. Í dag velti PepsiCo 65 milljörðum Bandaríkjadala sem jafngildir 7.800 milljörðum íslenskra króna. Hjá fyrirtækinu starfa 300.000 manns.