Í fyrsta sinn síðan á vordögum 2014 var Ryanair rekið með tapi á síðasta ársfjórðungi í fyrra. Tap Ryanair nam tæpum 20 milljónum evra, jafngildi um 2,7 milljarða króna, borið saman við 113 milljóna evra hagnað á sama fjórðungi árið á undan. Samtals voru farþegar félagsins 32,7 milljónir sem er aukning frá sama tímabili árið á undan þegar þeir voru 30,4 milljónir talsins. Tekjur félagsins jukust um 9% milli ára og voru 1,56 milljarðar evra eða sem nemur um 215 milljörðum króna.

Tapið má rekja til hratt hækkandi rekstrarkostnaðar síðastliðna sex mánuði. Til að mynda hefur fréttastofa BBC eftir greinendum á markaði að eldsneytisreikningur félagsins hafi hækkað um 32% á milli ára. Veturinn byrjaði heldur ekki vel fyrir Ryanair. Síðastliðið haust fóru flugmenn og flugþjónar félagsins í verkfall sem varð til þess að félagið varð að aflýsa 250 flugferðum við litla hrifningu 40 þúsund farþega.

Samkvæmt frétt BBC hækkaði kostnaður við starfsmannahald um 31% milli ára og samtals hækkaði rekstrarkostnaður félagsins um 20% milli ára upp í 1,54 milljarða evra. Hlutabréf Ryanair féllu um nær 5% morguninn eftir að tapið var tilkynnt. Verð hlutabréfa Ryanair hefur verið í nær samfelldu lækkunarferli frá miðju sumri 2017 þegar verðið var 18,5 evrur á hlut. Í kjölfar uppgjörsins í vikunni fór verðið niður í 10,8 evrur sem er lækkun upp á nær 30% miðað við sama tíma fyrir ári.

O´Leary tilkynnti nú í vikunni að hann myndi stýra félaginu í önnur fimm ár og batt þannig enda á orðróm um að hann væri við það að hætta. Hlutverk hans í brúnni mun þó taka breytingum þar sem fyrirhugað er að endurskipuleggja rekstur félagsins. Stefnt er að því að skipta félaginu í fjórar rekstrareiningar og mun O´Leary gegna stöðu forstjóra yfir Ryanair Holding en nýr forstjóri yfir sjálfu flugfélaginu verður ráðinn síðar á þessu ári. Aðrar einingar undir regnhlíf Ryanair Holding verða Laudamotion með höfuðstöðvar í Ástralíu, Ryanair Sun í Póllandi og Ryanair UK.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér