*

laugardagur, 16. febrúar 2019
Erlent 13. október 2016 09:25

Forstjóri Wells Fargo segir af sér

John Stumpf, forstjóri eins stærsta banka Bandaríkjanna Wells Fargo, hefur sagt upp störfum í kjölfar skandalamáls.

Ritstjórn
John Stump, nú fyrrum forstjóri Wells Fargo
epa

John Stumpf, forstjóri Wells Fargo bankans, hefur ákveðið að stíga til hliðar vegna skandalamáls. Bankinn sætir nú rannsókn vegna þess að hann var uppvís um að opna um tvær milljónir bankareikninga án vitneskju viðskiptavina.

Stumpf, sem var með 19,3 milljónir dala í árslaun á síðasta ári, eða því sem jafngildir 2,2 milljörðum íslenskra króna, fékk ekki greidd laun á meðan rannsókn málsins stóð yfir.

Sloan tekur við keflinu

Timothy Sloan, formaður stjórnar bankans, tekur við af John Stumpf í stöðu forstjóra og Stephen Sanger tekur við stöðu stjórnarformanns.

Bankinn var sektaður um 185 milljónir dollara, eða því sem jafngildir 21 milljarð króna, vegna þessarar ólöglegu starfsemi og er sektin sú hæsta sem að Fjármálaeftirlit Bandaríkjanna hefur gefið.  Wells Fargo hefur sagt upp um 5 þúsund manns vegna málsins.