Í júní flugu 67 þúsund íslenskir farþegar til útlanda sem er miklu meiri fjöldi en áður hefur mælst í einum mánuði frá því að talningar Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli hófust. Fótboltaveislan í Frakklandi hefur eflaust haft mikið um þetta að segja, en samkvæmt frétt á vefnum Túristi.is hefur sala á öðrum fótboltaferðum fyrir veturinn farið vel af stað.

Þór Bæring Ólafsson hjá Gaman-ferðum, sem sérhæfir sig m.a. í boltaferðum til Bretlands, segist hafa fundið fyrir samdrætti síðasta vor en tímabilið hafi farið ótrúlega vel á stað og salan framar vonum. Þór Bæring telur þennan mikla áhuga m.a. skrifast á nýja liðsmenn ensku liðanna.

„Það eru stórar stjörnur á leið í enska boltann eins og til dæmis að Zlatan Ibrahimovic og Henrikh Mkhitaryan til Manchester United, Granit Xhaka til Arsenal, Sadio Mane til Liverpool og Ilkay Gundogen til Manchester City. Það er alltaf mikil eftirvænting í kringum nýja leikmenn. Svo er auðvitað Jose Mourinho tekinn við liði Manchester United og Pep Guardiola við liði Manchester City þannig að það er meiri spenna í fólki núna en síðustu sumur sýnist mér."