Tímamót urðu í gámaflutningum hér á landi í gær en þá kom til landsins 40 feta gámur á vegum TVG-Zimsen sem farið hafði með lest alla leið frá Chengdu í Kína til Rotterdam og þaðan til Íslands með skipi sem kom til hafnar í Reykjavíkur í gær.

„Þetta er fyrsti heilgámurinn sem fluttur er með lest frá Kína gegnum Rotterdam og til Íslands. Þessi lestartenging er nýjung fyrir flutningaheiminn og sparar um það bil helminginn af flutningstíma frá Asíu til Evrópu miðað við sjófrakt, en er þó töluvert ódýrari en flugfrakt alla leið til Íslands. Gámurinn fór af stað frá Kína 12. maí síðastliðinn og var um þrjár vikur á leiðinni til Íslands," segir Raffaele Manna, yfirmaður umboðsmannakerfis TVG-Zimsen.

Hann segir lestartenginguna hluta af nýrri stefnu kínverskra stjórnvalda til að tengjast stórum hluta heimsins betur til að efla viðskipti og samskipti og stuðla að auknum hagvexti. „Lestartengingin er traust flutningsleið einnig vegna þess að hefðbundnu flutningaleiðir frá Kína geta verið óstöðugar. Til dæmis gerist það reglulega að fraktflug frá Kína til Evrópu er yfirbókað og þá er annaðhvort að borga hærra flutningsgjald, eða bíða eftir að pláss losni. Þá má einnig nefna að lestarferð frá Kína til Evrópu er umhverfisvænni flutningamáti en flug og skip,“ bætir hann við.