Jón Daníelsson, hagfræðingur og prófessor við London School of Economics, hélt í síðustu viku fyrirlestur í Háskóla Íslands undir yfirskriftinni „Stenst uppskriftin í raunverulegum bakstri?“ . Þar ræddi hann annars vegar um innleiðingu nýrra fjármálareglna og upptöku þjóðhagsvarúðar og hins vegar um samspil þjóðhagsvarúðar og hefðbundinnar peningastefnu með sérstakri áherslu á Ísland.

Jón hefur skrifað tvær bækur og fjölmargar fræðigreinar sem snúa að áhættu. Í fyrirlestri sínum sagði hann tilgang þjóðhagsvarúðartækja vera þrenns konar: að koma í veg fyrir uppsöfnun of mikillar áhættu í fjármálakerfinu, draga úr áhrifum fjármálakreppa þegar þær gerast og sjá til þess að fjármálakerfið leggi sitt af mörkum til hagvaxtar. Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að á Íslandi hafi menn gleymt síðasta hlutverkinu.

„Á Íslandi hefur mjög mikið verið einblínt á hvernig á að draga úr áhættu. Við erum með öruggasta bankakerfi í heimi eftir hrun, það var of lítið gert af þessu fyrir hrun en núna er of mikið um varúðarkerfi. Umræðan ætti að snúast frekar um það hver tilgangur fjármálakerfisins er og hvernig við getum best stuðlað að nýsköpun í atvinnulífinu,“ segir Jón. Nefnir hann sem dæmi að eiginfjárhlutfall banka á Íslandi sé nærri tvöfalt hærra en tíðkast erlendis. Hann segir að reglurnar á Íslandi ættu að vera sambærilegar og í öðrum löndum en að of langt hafi verið gengið og þær séu þyngri.

Trúverðugleika stefnt í hættu

Þegar kemur að starfsemi seðlabanka er trúverðugleiki þeirra algert lykilatriði. Seðlabankar hafa gríðarleg völd og eru látnir vera sjálfstæðir svo stjórnmálamenn geti ekki haft áhrif á peningastefnuna með skammtímasjónarmið að leiðarljósi. Að sögn Jóns er hins vegar mikill munur á peningastefnu og þjóðhagsvarúðartækjum þegar kemur að flækjustigi. Verðbólgan er eini mælikvarðinn á ágæti peningastefnunnar og auðmælanleg. Stjórntæki Seðlabankans eru einungis tvö og afar skýr, vextir og peningamagn í umferð. Þjóðhagsvarúðartæki eru hins vegar mun flóknari og verr skilgreind fyrirbæri og að auki miklu pólitískari.

„Stefnumótunin verður því flóknari og erfitt að átta sig á markmiðunum. Aðgerðirnar hafa sömuleiðis bein áhrif á einstaka aðila og einstök fyrirtæki í samfélaginu, sem gerir þetta pólitískt. Þjóðhagsvarúð er í eðli sínu tæki sem á mun frekar heima undir fjármálaráðuneyti heldur en seðlabanka,“ segir Jón. Í þokkabót getur lokaútkoman unnið þvert gegn markmiðunum; í stað þess að trúverðugleiki peningastefnunnar smitist út í þjóðhagsvarúðartækin getur óskýrleiki þjóðhagsvarúðartækjanna grafið undan trúverðugleika peningastefnunnar.

„Það er viðurkennt að þjóðhagsvarúð er illa skilgreind og í raun 50 árum á eftir peningastefnunni í hugsun. Það er alltaf hættulegt að ganga of langt í stefnu þar sem við vitum ekki almennilega hvað við erum að gera,“ segir Jón.

Tryggingar eru dýrar

Jón segir vissulega nauðsynlegt að vera með einhvers konar þjóðhagsvarúðartæki, hins vegar sé mikilvægt að horfa heilsteypt á hlutina út frá markmiðunum og láta alla þættina vinna saman.

„Fjármálastöðugleiki einn og sér skiptir ekki svo miklu máli heldur vill maður fjármálastöðugleika til að hafa fjármálakerfi sem stuðlar að hagvexti. Markmiðið getur ekki eitt og sér verið einhver mæling á því sem er að gera í fjármálakerfinu, það hlýtur að vera að koma á kerfi sem hjálpar íslensku efnahagslífi að vaxa á öruggan og sjálfbæran hátt,“ segir Jón. Hér á landi sé hins vegar gengið of hart fram til að draga úr áhættu í fjármálakerfinu og takmarka þá hluti sem hægt er að gera.

„Það leiðir til þess að það verður til dæmis erfiðara fyrir fyrirtæki að fá lánsfjármagn og það verður dýrara að eiga við allt bankakerfið. Öryggi kostar peninga, tryggingar eru dýrar. Þannig að spurningin er hversu mikið vill maður tryggja? Mér finnst of langt gengið í að kaupa tryggingar en ekki hugsað nógu mikið um kostnaðinn af tryggingunum, sérstaklega í ljósi þess að það eru töluverðar efasemdir um hversu vel þessi mælitæki virka sem menn eru að nota.“

Nánar er rætt við Jón í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast rafrænt eintak af blaðinu með því að smella á Tölublöð á forsíðu.