Vegna verkfalls sjómanna drógust fragtflutningar Icelandair saman um 14% á milli ára að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá félaginu. „Skýrist það af verkfalli sjómanna á Íslandi sem hefur haft í för með sér samdrátt í útflutningi á fiski," segir í tilkynningunni.

„Framboðnum gistinóttum hjá hótelum félagsins fjölgaði um 14% á milli ára. Herbergjanýting var 69,2% og 8,4 prósentustigum hærri en í janúar 2016."

Nálega fimmtungsaukning farþega

Í janúarmánuði var farþegafjöldi félagsins 206 þúsund eða 18% fleiri en fyrir ári síðan. „Framboð var aukið um 22%," segir í tilkynningunni.

„Sætanýting var 73,6% samanborið við 74,3% í janúar í fyrra. Farþegar Flugfélags Íslands voru um 20 þúsund og fækkaði um 1% milli ára.

Framboð í janúar var 24% meira en í janúar á síðasta ári og skýrist það af flugi til Aberdeen sem flogið er í samstarfi við Icelandair og hófst í mars 2016.

Sætanýting nam 62,5%. Seldir blokktímar í leiguflugi voru 14% færri en í janúar á síðasta ári.“