Knattspyrnufélagið Fram hyggst vísa deilu sinni við Reykjavíkurborg um uppbyggingu á íþróttasvæði félagsins við Úlfarsárdal til gerðardóms. Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um fjögurra milljarða króna uppbyggingu Fram og borgarinnar á svæðinu rétt fyrir jól.

Segir félagið að því sé nauðbeygður þessi kostur vegna vanefnda, einhliða aðgerða og samningsbrota af hálfu borgarinnar, en félagið hafi um árabil verið í viðræðum við borgina um að staðið verði við undirritaða samninga frá árinu 2008.

Dagur segi borgina ekki hafa áhuga

„Eftir hrun bankakerfisins síðla sama ár samþykkti FRAM að bíða með efndir samningsins þar til efnahagsástandið lagaðist og lýstu vilja til breytinga á samningum að ósk borgarinnar,“ segir í fréttatilkynningu Fram.

„Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, lýsti hinsvegar einhliða yfir á fundi sem forsvarsmenn FRAM voru boðaðir til í september á síðasta ári að borgin hefði engan áhuga á að standa við gerða samninga.

Samningar standi grunnregla

Það vakti furðu, ekki síst í ljósi hans eigin orða 16. júlí 2015 í tengslum við deilu borgar og ríkis um Reykjavíkurflugvöll, þegar hann sagði: “...enda sú regla að samningar standi einn af hornsteinum samfélagsins.“

Á fundi borgarráðs 15.12. 2016 voru síðan einhliða drög að nýjum samningi við FRAM um uppbyggingu í Úlfarsárdal lögð fram, án þess að FRAM hefði fengið að sjá þau drög og félaginu í framhaldi tilkynnt að engar frekari heimildir væru til samninga."

Afsali sér eignum

Gera samningsdrög Reykjavíkurborgar nú ráð fyrir þrem grasvöllumn í stað 7 á uppbyggingarsvæðinu við Úlfarsárdal, fimmtungsskerðingu á íþrótta- og félagshúsi, ásamt verulegum niðurskurði á áhorfendaaðstöðu.

Auk þess er gert ráð fyrir að Fram afsali sér með öllu eignum sínum í Safamýri en eignist engin mannvirki í Úlfarsárdal. Þetta kemur ofan á að núverandi áætlanir borgarinnar gera ráð fyrir mun minni borg á svæðinu en upphaflega var áætlað.

Félaginu settir afarkostir

„Framganga fulltrúa borgarinnar styðst ekki við ákvæði núgildandi samnings aðila né staðfestingu borgarstjórnar árið 2008 á gildi þess samningsins, heldur þvert á móti,“ segir Sigurður Tómasson, formaður aðalstjórnar FRAM í tilkynningunni.

„Með slíkri framgöngu hafa félaginu verið settir afarkostir, þ.e. skrifa undir drögin eða krefjast efnda á núgildandi samningi fyrir gerðardómi líkt og þar er kveðið á um.“