Borgaryfirvöld styrkja íþróttafélögin í Reykjavík.  Samkvæmt  drögum að nýjum samningi við Knattspyrnufélagið fram mun félagið fá 119,6 milljónir  króna á ári í styrk. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá voru samningsdrögin lögð fram á síðasta fundi borgarráðs. Samkvæmt þeim mun Fram flytja alfarið upp í Úlfarsárdal en þar mun borgin byggja íþróttamannvirki fyrir fjóra milljarða króna , þar á meðal flóðlýstan leikvang með stúku.

„Ef Fram spilar heimaleiki sína í knattspyrnu á Laugardalsvelli, þar til félagið flytur í Úlfarsárdal, mun Reykjavíkurborg greiða KSÍ kostnað vegna leikja félagsins á Laugardalsvelli," segir í drögunum. Sú fjárhæð er inni í heildarstyrknum.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru borgaryfirvöld öll af vilja gerð til að klára málið. Í áætlunum borgarinnar þegar gert ráð fyrir fjármunum í verkefnið og ef  samningar takast fljótt ætti uppbygging á íþróttasvæðinu að taka tvö til þrjú ár. Þegar, eða ef, Fram flytur losnar mjög verðmætt byggingarland á höfuðborgarsvæðinu við Safamýri. Eins og staðan er í dag er áfram gert ráð fyrir því að þar verði íþróttasvæði fyrir íbúa og hyggst borgin meðal annars endurbyggja gervigrasvöllinn á staðnum.

Auk þess að leggja fjóra milljarða í uppbyggingu í tengslum við Fram hyggst borgin fara í ýmsar aðrar framkvæmdir í hverfinu á næstunni. Þar verður til dæmis byggð sundlaug, menningarhús og framkvæmdir eru hafnar við nýjan skóla. Þá er verið að vinna að lýsingu að deiliskipulagi sem gerir ráð fyrir 440 íbúða stækkun hverfisins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .