Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna segir að í dag verði tilkynnt um stöðuna í stjórnarmyndunarviðræðum flokks hennar við Pírata, Samfylkingu og Framsóknarflokkinn.

Ef ákveðið yrði að halda áfram í dag myndi vinnan færast yfir í að semja stjórnarskrársáttmálann, en eins og staðan er núna hefur ekki náðst lokaniðurstaða í stóru málefnunum að því er Morgunblaðið greinir frá.

Þau mál sem hafa verið rædd á fundum flokkana yfir helgina eru:

  • Kjaramál
  • Innviðauppbygging í heilbrigðis- og menntamálum
  • Tekjugrunnur ríkisins
  • Efnahagslegur stöðugleiki
  • Samgöngumál
  • Endurskipulagning fjármálakerfisins
  • Kjör öryrkja og aldraðra

„Nei, eins og ég hef sagt áður þá er ekki búið að hnýta neitt saman,“ segir Katrín spurð hvort einhver niðurstaða sé komin.

„Það er verið að fara yfir þessa stóru mynd og það eru mörg þungavigtarmál sem við höfum verið að ræða þar; Staðan á vinnumarkaði, kjaramál, kjör öryrkja og aldraðra í samhengi við það, uppbyggingin í heilbrigðis- og menntamálum og samgöngumálum, tekjugrunnur ríkisins og hvernig við viljum tryggja hér áfram efnahagslegan stöðugleika. Þetta er auðvitað stóra myndin og svo hafa auðvitað önnur mál verið rædd samhliða.“

Flokkarnir hafa mismunandi sýn

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar vill einnig halda viðræðunum áfram en á ákveðnum forsendum og því ráðist framhaldið í dag. „Það eru bara þrjú, fjögur mál sem við þurfum að skoða betur þannig ða flokkarnir geti í rauninni haldið áfram,“ segir Logi þegar rætt var við hann í gær, en hann segir flokkana hafa mismunandi sýn á þessi mál.

„Þetta eru auðvitað fjórir ólíkir flokkar sem hafa þó mjög líkar áherslur í brýnustu málunum en það standa ennþá útaf mál sem við þurfum bara að ræða í rólegheitunum. Við höfum góðan til þess í fyrramálið.“

Meira ósamræmi milli Framsóknar og vinstri flokkanna

Lilja Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknarflokksins svarar því játandi að samstaða sé um það meðal þingflokksins að halda viðræðunum áfram.

„Já við erum semsagt að fara yfir þessi lykilmál og við erum að leggja áherslu á þessi stóru verkefni; Endurskipulagningu fjármálakerfisins, hvernig við getum gert það þannig að það þjóni heimilunum og fyrirtækjunum í landinu. Annað sem við erum að leggja mikla áherslu á eru komandi kjarasamningar,“ segir Lilja

Lilja segir þingflokkinn leggja á áherslu á þessi mál, en aðspurð hvort ekki sé meira ósamræmi milli Framsóknarflokksins og hinna flokkanna í málefnum sé það einmitt ástæða þess að nauðsynlegt sé að vanda til verka. „Þess vegna leggjum við áherslu á að þetta sé allt gert á réttum forsendum.“