Í kjölfar bréfs umboðsmanns Alþingis til bankaráðs Seðlabanka Íslands, sem dagsett er 2. október 2015, samþykkti bankaráðið að óska eftir því að Lagastofnun Háskóla Íslands yrði fengin til að gera óháða úttekt á stjórnsýslu Seðlabankans við framkvæmd gjaldeyriseftirlits, undanþágubeiðnina og gjaldeyrisrannsókna. Bankaráð fór þess á leit við Lagastofnun að skoðað yrði hvort ástæða væri til þess að skýra æskilegt verksvið og lagaheimildir bankans á þessum sviðum og að gerðar yrðu tillögur til úrbóta eftir því sem þörf krefði. Þetta kemur fram í frétt á vef Seðlabanka Íslands.

Í úttekt Lagastofnunar er hægt að skoða helstu niðurstöður skýrslunnar á síðum 13 til 17. Þar kemur meðal annars fram að lagaumgjörð um gjaldeyrishöft var óskýr og ónákvæm í upphafi, þar með talið reglur sem settar voru með heimild í bráðabirgðaákvæði 1 í gjaldeyrismál. Niðurstaða bankaráðs Seðlabankans er að úttekt Lagastofnunar hefi að óbreyttu ekki tilefni til að aðhafast frekar í þessu máli. Hægt er að lesa úttektina hér.

Ógagnsæi gjaldeyriseftirlitsins

„Þrátt fyrir að Reglur og Leiðbeiningarreglur hafi orðið skýrari með tímanum á ákveðnum sviðum, var framkvæmd Seðlabankans ógagnsæ og verklagsreglur, fordæmi og breytt framkvæmd ekki birt, samanber til hliðsjónar túlkunarreglur Fjármálaeftirlitsins,“ segir í úttekt Lagastofnunar.

Enn fremur er tekið fram að frá nóvember 2008 til september 2014 var stjórnsýsla Seðlabankans í undanþágumálum ógagnsæ og óaðgengileg og því nánast útilokað fyrir einstaklinga og lögaðila að átta sig á því hvaða undanþágur voru gefnar og á hvaða forsendum, að mati Lagastofnunar. Þó er tekið fram að úr því hafi verið bætt með betri upplýsingum á heimasíðu Seðlabankans árið 2014 og uppfærslu í febrúar 2015.

Úttekt Lagastofnunar hefur jafnframt leitt í ljós að óvissa er um bráðabirgðaákvæði laga um gjaldeyrismál og reglur Seðlabankans sem settar eru samkvæmt því, sem refsiheimilda. „Afstaða Seðlabankans og fjármála- og efnahagsráðuneytis hefur frá upphafi verið sú að þrátt fyrir galla á ákvæðinu, feli bráðabirgðaákvæði I GL í sér fullnægjandi heimild til álagningar refsi- og stjórnsýsluviðurlaga. Dómstólar hafa ekki skorið úr um þessi atriði og er því ekki gerð athugasemd við framkvæmd gjaldeyriseftirlitsins,“ segir í úttektinni.

Málsmeðferð í heildina vönduð

Úttekt Lagastofnunar á málsmeðferð undanþágumála beindist fyrst og fremst að því að skoða málshraða, jafnræði og samræmi, veittar leiðbeiningar og upplýsingagjöf og rökstuðning ákvarðana. Úttektin var takmörkuð við 94 mála úrtak af rúmlega 6000 málum og verður því að gera þann fyrirvara að um lítið úrtak er að ræða.

Af úrtaksmálum má ráða að málsmeðferð gjaldeyriseftirlitsins sé í heildina vönduð og brugðist hafi verið við ábendingum í skýrslu innri endurskoðanda um verklag og frágang gagna, að sögn Lagastofnunar.

Hins vegar koma nokkur frávik fram varðandi málshraða miðað við þá tímafresti sem Seðlabanki hafði sjálfur sett sér þar sem að langur málsmeðferðartími, allt að rúm þrjú ár er óútskýrður, en í miklum meirihluta úrtaksmála eru skýringar á lengri afgreiðslutíma.

„Ekki koma fram frávik að því er varðar jafnræði og samræmi í úrlausnum,“ er jafnframt tekið fram í úttektinni. Þó er bent á að Seðlabankinn hefði í reglum getað afmarkað atriði og mælt fyrir um sambærilega málsmeðferð, til dæmis í málum er varða undanþágur vegna fasteignakaupa erlendis. Með því hefði framkvæmd verið gerð skýrari og vinnuálagi létt af undanþágudeild.