Fyrirtækið Icegroup, sem Kristþór Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ísafoldarprentsmiðju, á hlut í, var eitt af þeim 13 fyrirtækjum sem gerðu tilboð í Plastprent þegar Framtakssjóður Íslands bauð fyrirtækið til sölu. Plastprent var selt Kvos, móðurfélagi Odda. Er greint frá þessu í Morgunblaðinu í dag.

Kristþór  tekur fram að Icegroup hafi dregið sig út úr söluferlinu. „Ég veit ekki hvaða kröfur voru gerðar til þeirra. Við sýndum fram á greiðslugetu til að greiða 250 milljónir,“ segir Kristþór þegar hann er spurður hvort hann teldi að gerðar hefðu verið aðrar kröfur til Kvosar en Icegroup. Kristþór gagnrýndi sölu Plastprents til Kvosar í grein í Fréttablaðinu á dögunum á þeim grundvelli að Kvos hefði fengið afskrifaðar 5 milljarða króna skuldir og velti því fyrir sér hvernig fyrirtækið hefði getað sýnt fram á 250 milljóna króna greiðslugetu til að koma til greina sem kaupandi Plastprents.