Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Jón Gunnarsson þingmaður Suðurkjördæmis tóku í gær fyrstu skóflustungurnar að nýju húsi Hafrannsóknastofnunar, sem mun rísa að Fornubúðum 5 í Hafnarfirði.

Gert er ráð fyrir að Hafrannsóknastofnun flytji í þetta nýja húsnæði um mitt næsta ár en þá verður starfsemi hennar á höfuðborgarsvæðinu loks öll á einum stað. Í dag eru höfuðstöðvarnar á Skúlagötu en geymslur og skemmur við Grandagarð. Þá munu rannsóknaskip stofnunarinnar fá lægi við nýjan hafnargarð sem Hafnarfjarðarhöfn hyggst reisa fyrir framan húsið.

Nýju höfuðstöðvarnar við Fornubúðir verða rúmir 4.000 fermetrar en í eldri byggingu, sem verður tengd nýbyggingunni, verður um 1.400 fermetra geymsla, verkstæði og útgerðaraðstaða. Húsið verður byggt úr timbri og er áhersla lögð á að hafa það eins umhverfisvænt og mögulegt er. Hönnun hússins er í höndum Batterísins Arkitekta en það er Fornubúðir fasteignafélag ehf. sem byggir.