Samanlögð fjárfesting nokkurra stórra verkefna, sem Viðskiptablaðið hefur tekið saman, nemur 733 milljörðum króna. Framleiðsluslakinn sem varð hér í kreppunni er horfinn. Vissulega er það jákvætt en miðað við tölur um fjárfestingar vegna nokkurra stórra verkefna á næstu þremur árum, er brýnt að hér verði vel haldið á spilunum í hagstjórninni. Í þjóðhagsspá Hagstofunnar, sem kynnt var í síðustu viku, eru það fyrst og fremst fjárfesting og einkaneysla sem munu drífa hagvöxtinn áfram á næstu misserum.

Viðskiptablaðið tók saman tölur um fyrirhugaða fjárfestingu vegna nokkurra stórra byggingaframkvæmda á næstu þremur árum, eða frá 2016 til og með árinu 2018.

280 milljarðar í byggingu íbúða

Samtök iðnaðarins kynntu á dögunum spá um byggingu íbúða á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt henni verður byrjað að byggja um 9.400 íbúðir á næstu þremur árum. Fjárfesting vegna þessarar framkvæmda hljóðar upp á um 280 milljarða og er þá reiknað með að meðalstærð íbúða verði 100 fermetrar og fermetraverðið verði 300 þúsund.

framkvæmir
framkvæmir
Á þessum tíma er gert ráð fyrir að hér rísi fjórar kísilverksmiðjur og nemur samanlagður kostnaður við byggingu þeirra um 207 milljörðum króna. Á framkvæmdatímanum munu um 1.300 manns vinna við byggingu kísilverksmiðjanna fjögurra en það er svipaður fjöldi og starfaði við Kárahnjúkavirkjun þegar þær framkvæmdir stóðu sem hæst.

Forsvarsmenn Isavia, sem er opinbert hlutafélag, hafa sagt að framkvæmdir við 1. áfanga stækkunar Keflavíkurflugvallar muni hefjast í lok næsta árs eða byrjun árs 2017. Fjárfesting vegna þessa 1. áfanga er metinn á 70 til 90 milljarða.
Hagfræðideild Landsbankans greindi frá því í fyrradag að ætla mætti að heildarfjárfestingar í hótelum á þessu ári og næstu 3 árum muni nema um 47 milljörðum króna.

Jarðgöng, raforkulínur og virkjanir

Nýframkvæmdir á vegum Vegagerðarinnar nema 30 til 35 milljörðum króna á næstu þremur árum. Þar vegur jarðgangagerð þyngst en á þessum tíma er gert er ráð fyrir að leggja samtals um 14 milljarða Norðfjarðargöng, Dýrafjarðargöng og göng, sem munu tengja saman hafnarsvæðið á Húsavík og verksmiðju PCC á Bakka.

Áætlanir Landsnets, sem annast flutning raforku og stjórnun raforkukerfisins, miða við að árin 2016, 2017 og 2018 verði á bilinu 20 til 25 milljörðum varið í framkvæmdir vegna raforkuflutningskerfisins.

Landsvirkjun hefur þegar hafið framkvæmdir við Þeistareykjavirkun en kostnaður við hana er á bilinu 20 til 24 milljarðar. Fyrirtækið hefur einnig ákveðið að ráðast í stækkun Búrfellsvirkjunar og er áætlað að þær framkvæmdir hefjist næsta vor. Kostnaður er metinn á 13 til 15 milljarða króna.

Loks er komin hreyfing á byggingu nýs Landspítalans. Fyrir rúmri viku síðan var fyrsta skóflustungan að nýju sjúkrahóteli.  Á næstu þremur árum reiknar Viðskiptablaðið með að um 10 milljörðum verði varið í byggingu nýs Landspítala.

„Við óttumst alveg þenslu"

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, staðan sé viðkvæm. „Við óttumst alveg þenslu," segir hann. „Það er oft svolítið erfitt að tímasetja verkefnin og mikilvægt að menn horfi á hvenær raunveruleg fjárfesting fellur til því það að verkefni sé á hönnunarstigi hefur kannski ekki þensluáhrif."

Að sögn Almars er mjög slæmt ef umræðan um þenslu verður til þess að hætt verði við að skipuleggja næstu skref því hönnun og þróun taki tíma.

„Þess vegna getur verið gott fyrir ríkið og aðra að vera tilbúnir með verkefni sem þeir geti af hagstjórnarástæðum ákveðið að fresta en að um leið og það myndast slaki þá sé hægt að fara af stað."

Hrikaleg mistök að byggja ekki spítalann

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, situr einnig í samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir, segir að hættumerki ofþenslu séu öll til staðar.

„Í samstarfsnefndinni höfum við verið að skoða hvernig hægt er stilla opinberar framkvæmdir þannig af að sem minnst hætta verði á ofþenslu með tilheyrandi magaskell. Vandinn er sá að mörg af þeim verkefnum sem fram undan eru eru mjög þörf.
Þó það þýði svo sem lítið að tala um það núna þá voru hrikaleg mistök að byggja ekki sjúkrahúsið í kreppunni. Það var besti tíminn til að gera það."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .