Pascal Lamy, framkvæmdastjóri Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) gerir ráð fyrir að Asíuríki muni leiða bataferlið í alþjóðaviðskiptum.

Þetta kom fram á blaðamannafundi í gær eftir fund samráðsaðila í Asíu sem haldinn var í Singapúr.

„Okkar spár benda til þess að ríki í Asíu muni vera leiðandi í alþjóðaviðskiptum næstu árin og með því muni þau leiða það sem kalla má bataferli í alþjóðlegum viðskiptum,“ sagði Lamy.

WTO gaf í byrjun júní út endurskoðaða efnahagsspá þar sem gert er ráð fyrir að alþjóðaviðskipti dragist saman um 10% milli ára í ár. Í upphafi árs gerði stofnunin ráð fyrir 9% samdrætti. Rétt er að hafa í huga að þó svo að munurinn sé aðeins eitt prósentustig eru gífurlegar upphæðir á bakvið hvert prósentustig þegar talað er um samdrátt í alþjóðlegum viðskiptum.

Athygli vakti að WTO spáði engu fyrir um útflutningi ríkja á framleiðsluvörum sem jókst á síðasta ári um 15% milli ára og nam um 15,78 þúsund milljörðum Bandaríkjadala. Heimildarmenn Reuters fréttastofunnar segja þó að þar muni verða verulegur samdráttur á þessu ári.