Til stendur að skrifa undir kjarasamninga Samtaka atvinnulífsins við nítján félög innan Starfsgreinasambandsins, VR og önnur félög innan Landssambands verslunarmanna í Karphúsinu innan tíðar.

Ríkisstjórnin segir framlag sitt til kjarasamninga hljóða upp á 100 milljarða króna á samningstímanum, sem er til nóvember 2022. Meðal aðgerða eru þróun íbúðabyggðar á Keldnalandi, hækkun lægstu ráðstöfunartekna um 10 þúsund, og sérstök lán eða nýting hluta lífeyrisiðgjalds til fyrstu húsnæðiskaupa. Þetta er haft eftir heimildum Kjarnans í frétt á vef hans í morgun.

Sagt er frá því að til hafi staðið að kynna aðgerðirnar í gærkvöld, en því verið frestað á síðustu stundu. Samtök Atvinnulífsins og verkalýðsfélögin eru að leggja lokahönd á samningana og stefnt er að því að þeir verði undirritaðir nú síðdegis.

Tugir aðgerða
Pakki ríkisins er sagður innihalda tugi aðgerða sem snerti ólíka fleti samfélagsins. Rætt er um að hækka skerðingarmörk barnabóta í 325 þúsund krónur, auk þess sem til stendur að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði frá og með 2021, eins og áður hafði komið fram.

Skattbreytingar sem til eru lagðar eru í takt við þær sem áður höfðu komið fram, nýtt lægsta skattþrep, en í stað þess að auka ráðstöfunartekjur lægstu tekna um 6.750 krónur á mánuði munu þær nú hækka um 10 þúsund krónur.

Mikið gert fyrir fyrstu kaupendur
Nýting lífeyrisiðgjalds til fyrstu kaupa felst í því að 3,5 af þeim 15,5% launa sem fer í lögbundið iðgjald verði hægt að nota til húsnæðiskaupa. Sérstök hlutdeildarlán til fyrstu íbúðakaupenda, sem kveðið er á um í tillögunum, munu bera lægri vexti og afborganir fyrstu árin, með það fyrir augum að hjálpa tekjulágum að eignast eigið húsnæði. Þá verða úrræði vegna fyrstu kaupa útvíkkuð til þeirra sem ekki hafa átt húsnæði í fimm ár.

Auk ofangreindra aðgerða verður nýting séreignasparnaðar til að greiða niður húsnæðislán framlengd til sumarsins 2021, en til hafði staðið að það úrræði rynni út í júlí næstkomandi.

Takmarkanir á verðtryggingu
Í gær sagði Kjarninn einnig frá því að ýmsar takmarkanir á vægi verðtryggingar lána væru hluti af framlagi stjórnvalda. Felur það að sögn meðal annars í sér bann við 40 ára verðtryggðum jafngreiðslulánum, lengingu lágmarkstíma verðtryggðra lána í 10 ár, og hugsanlega afnám húsnæðisliðar úr vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.

Vísir hefur þó eftir Ragnari Þóri Ingólfssyni, formanni VR, í dag að hann hefði viljað „afdráttarlausara samkomulag“ um verðtrygginguna, en útskýrði ekki nánar við hvað hann ætti. Hann sagði hinsvegar ekki hægt að fá allt sem maður vildi í kjaraviðræðum, og að samningarnir væru góður grunnur að byggja á.

Vaxtalækkun skilyrði
Þá hefur fréttastofa RÚV eftir heimildum að samningurinn verði tengdur framvindu efnahagsmála, en greinir ekki nánar frá útfærslu þess. Stundin greindi hinsvegar frá því nú í hádeginu að samkvæmt heimildum yrði samningurinn uppsegjanlegur ef vextir lækka ekki. Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor og nefndarmaður í peningastefnunefnd seðlabankans sagði í Silfri Egils á sunnudag að verði samið um hóflegar hækkanir myndi það forsendu fyrir lækkun vaxta ef fram fer sem horfir í efnahagsmálum á næstunni.