N1 hagnaðist um 1.072 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Þetta kemur fram í nýbirtri afkomutilkynningu félagsins. EBITDA fyrirtækisins nam 1.472 milljónum króna á fjórðungnum, samanborið við 1.110 milljónir á sama tíma í fyrra.

Framlegð af vörusölu jókst um 13,2% á fjórðungnum. Umferð á þjóðvegum landsins hefur þá einnig aukist, eða um sem nemur 9,1% ef borið er við sama fjórðung í fyrra. Í hlutfalli við þá aukningu hefur selt magn af bensíni og gasolíu aukist um 8,9% á milli ára.

Selt magn af JET lækkaði þó um 9,1% á milli ára vegna minni umsvifa í sjávarútvegi og vegna minni sölu til erlendra aðila. Eigið fé nam 8.538 milljónum króna og var eiginfjárhlutfallið 39,6% í lok ársfjórðungsins.