Landsliðsþjálfarinn Lars Lagerbäck, sem orðinn er nokkurs konar þjóðhetja hér á landi eftir árangur knattspyrnulandsliðsins í undankeppni Evrópumótsins, hefur fengið nýja bjórtegund kennda við sig. Sænski miðillinn Aftonbladet greinir frá málinu.

Þar kemur fram að íslenska bruggsmiðjan Borg hafi ákveðið að setja nýjan bjór á markað sem beri heitið Lars Lager Bock. Þar er rætt við Óla Rúnar Jónsson, einn forsvarsmanna fyrirtækisins, sem segir Lars vera í guðatölu á Íslandi um þessar mundir.

Hann segir hugmyndina hafa kviknað á veraldarvefnum fyrir ári síðan. Þá hafi einhver sagt að framleiða yrði Lagerbäck-bjór er Íslendingar kæmust á Evrópumótið í knattspyrnu. Nú þegar sætið hafi verið tryggt hafi fyrirtækið talið sér skylt að framleiða bjórinn.