Í skýrslu Viðskiptaráðs um íslenskt efnahagslíf kemur fram að efnahagslífið hafi að mestu náð sér eftir fjármálakrísuna.

Hagvöxtur hafi verið sterkur undanfarið og væntingar séu um að hann haldi áfram á næstu fáu árum. Hins vegar sé meiri óvissa þegar kemur að framtíðarhorfum til lengri tíma, þá byggist hann helst á því hvernig íslensku efnahagslífi muni reiða af þegar fjármagnshöftunum verði aflétt samhliða verðhækkunum innanlands og styrkingu krónunnar.

Einnig á því hvernig til tekst að ná fram hagvexti til lengri tíma í gegnum aukningu á framleiðni og útflutningi.

Léleg framleiðni aðalvandinn

Vísar viðskiptaráð þar í skýrslu McKinsey um framtíðarhorfur hagvaxtar á Íslandi, en aðalvandamálið hér á landi sé léleg framleiðni vinnuafls. Þannig sé hvort tveggja hátt hlutfall þjóðarinnar á vinnumarkaði og hver starfsmaður vinni margar vinnustundir. Þessu til viðbótar er umfang fjárfestingar í landinu svipað og annars staðar, svo framleiðni verður minni á hvern íbúa, og starfsmann, heldur en í nágrannalöndum okkar.

Til þess að ná sama tekjustigi og nágrannalöndin, yrði framleiðnin að aukast. Jafnframt sé ljóst að aukinn hagvöxtur hér á landi komi ekki til með auknum vinnustundum og hærra atvinnustigi, þess vegna þurfi úrbætur að koma til með bættri nýtingu fjármagns og fjárfestinga annars vegar og hins vegar með hærri framleiðni.

Hvort tveggja ætti að geta hækkað laun eða gefið vinnandi fólki tækifæri til að öðlast meiri frítíma, sem hvort tveggja sé þáttur í því að auka hagsæld.

Útflutningur tryggir sjálfbæran hagvöxti

Í skýrslunni er talað um nauðsyn þess að hagvöxtur til framtíðar verði sjálfbær, en hagvöxturinn fram að fjármálakrísunni 2008 hafi fyrst og fremst verið knúinn áfram af neikvæðum viðskiptahalla og uppbyggingu erlendra skulda. Það hafi leitt til óstöðugleika og gert efnahagsniðursveifluna sérlega djúpa fyrir okkur Íslendinga.

Því sé annar lærdómur sem skýrsla McKinsey fjallar um að sé nauðsynlegt að taka af fyrri reynslu að vöxtur útflutnings verði í það minnsta jafn vexti hagkerfisins í heildina. Þannig verði komið á jafnvægi í utanríkisviðskiptum og tryggt að hagvöxturinn sé sjálfbær.

Þar sem þrír fjórðu af útflutninginum sé til komin af nýtingu náttúrulegra auðlinda, það er fisks, endurnýjanlegrar orku og ferðamannastraums í náttúruperslur, þurfi aukinn vöxtur útflutnings að koma frá iðnaði sem ekki komi frá nýtingu þeirra. Það þurfi þá að vera í formi þekkingariðnaðar eða framleiðsluiðnaðaar. Segir jafnframt að vegna smæðar landsins séu tækifærin til hagvaxtar nálega ótakmörkuð.