Framleiðsla 737 Max flugvéla Boeing er enn í fullum gangi þrátt fyrir að vélarnar hafi verið kyrrsettar í mars. Búið er að panta fimm þúsund flugvélar af þessari gerð en einungis er búið að afhenda ríflega 300 vélar enn sem komið er.

Enn er stefnt að því að auka framleiðsluna þannig að hún nái 57 flugvélum á mánuði um mitt þetta ár að því er Bloomberg greinir frá . Alls þarf ríflega 600 þúsund einstaka hluti til að setja saman vélarnar og vinna birgjar félagsins hörðum höndum að því að afhenda það sem þarf til að hægt verði að bæta í framleiðsluna.

Vari kyrrsetning vélanna mánuðum saman mun Boeing því vera með hundruð flugvéla fasta á hlaðinu við verksmiðjur félagsins. Fyrirtækið gæti því fljótlega lent í vandræðum með að finna pláss fyrir vélarnar. Listaverð hverrar vélar er á annan tug milljarða og því næmi fjárfestingin í flugvélum, sem ekki verður hægt að hundruð milljarða króna á skömmum tíma. Þá kann að vera að félagið hægi annað hvort á framleiðslu eða endurkaupum hlutabréfa til að halda í fjármagn.

Flugmönnum ekki um að kenna

Tvö mannskæð flugslys í vetur urðu til þess að flugvélarnar voru kyrrsettar. Fyrstu niðurstöður rannsóknar vegna flugslys á Boeing 737 Max flugvélar Ethiopian Airlines í byrjun mars, voru birt í dag. Rannsakendur komust að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að kenna flugmönnum vélarinnar um slysið, heldur hefði sjálfstýring vélarinnar sem hindra á ofris byrjað að þrýsta nefi vélarinnar niður tveimur mínútum eftir að hún tók á loft.

Icelandair bíður

Boeing greindi frá því í byrjun vikunnar að það muni þurfa meira tíma en áður var talið til að ljúka uppfæra hugbúnað vélarinnar sem hindra á á ofris. Að því loknu munu bandarísk flugmálayfirvöld þurfa að samþykkja breytingarnar. Það hafa fjöldi flugmálayfirvalda utan Bandaríkjanna einnig boðað að þau muni þurfa að samþykkja breytingarnar áður en notkun vélanna þar verði heimiluð.

Því er ljóst að vikur eða mánuðir eru í að flugvélarnar verði í háloftunum á ný. Icelandair er eitt þeirra flugfélaga sem bíður eftir niðurstöðu í málinu en félagið hugðist nota níu Boeing 737 Max flugvélar í sumaráætlun sinni og nota í 29% flugferða sumarsins.