Framleiðslukostnaður endurnýjanlegrar orku hefur farið ört lækkandi en getur verið afar ólíkur milli landa og svæða þótt tæknin sé sú sama. Kemur þetta fram í grein Jóns Skafta Gestssonar orkuhagfræðings, sem birtist í Viðskiptablaðinu í síðustu viku.

Jón Skafti fjallar um skýrslu sem nýlega kom út á vegum Alþjóðaorkumálastofnunarinnar þar sem spáð var fyrir um þróun framleiðslukostnaðar rafmagns fyrir nýjar virkjanir árið 2020. Í skýrslunni er borinn saman framleiðslukostnaður virkjanna eftir því hver framleiðsluaðferðin er allt frá vindorku upp í kjarnorku.

„Stofnunin tekur óvenju sterkt til orða og talar um hrun í framleiðslukostnaði endurnýjanlegrar orku. Niðurstöður höfunda eru fengnar með tölulegri greiningu á gögnum frá 22 löndum um allan heim og taka til ólíkra tegunda raforkuframleiðslu. Niðurstöðurnar eru settar fram sem núvirtur meðalframleiðslukostnaður á megawattstund [USD/MWst] yfir líftíma virkjunar. Kostnaður við flutning og dreifingu er ekki með í þeim kostnaði sem Alþjóðaorkumálstofnunin setur fram, en að jafnaði þarf að leggja út í meiri kostnað við flutning þegar um endurnýjanlega orkugjafa er að ræða.“

Hann segir skýrsluhöfunda meta kostnað við vindorku á landi í Bretlandi vera í kringum USD 125/MWst sem sé umtalsvert hærri kostnaður en við sambærilegar vindtúrbínur í Hollandi sem eru taldar geta framleitt megawattstund á um USD 85/MWst. Framleiðsla með slíkum vindtúrbínum kostar á bilinu USD 90-95/ MWst í Frakklandi og Þýskalandi. Bretar búa því við umtalsvert hærri kostnað en nágrannaþjóðir sínar við framleiðslu vindorku. Það skilar sér í dýrara orkukerfi fyrir Bretland, enda er vindorka þeirra helsta uppspretta endurnýjanlegrar orku.

Greinina í heild sinni má lesa hér .