Í nýjustu peningamálum Seðlabanka Íslands er minnkandi hagvöxtur í landinu skýrður með minnkandi vexti útflutnings, en nú stefnir í að hagvöxturinn fyrir síðasta ár hafi verið 3,4%, þó hann hafi verið 4,3% fyrstu 9 mánuði ársins. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun ákvað peningastefnunefnd bankans jafnframt að stýrivextir verði óbreyttir í 4,25%.

Minnkandi hagvöxtur er sagður meðal annars koma til vegna aðlögunar ferðaþjónustu að sjálfbærari vexti en verið hefur hingað til, en einnig vegna samdrætti í útflutningi á hugverkum og viðskiptum og þjónustu í lyfjaiðnaði. Einnig er bent á áhrif af sjómannaverkfallinu í byrjun síðasta árs sem skýringu á að hagvöxturinn á árinu hafi verið lægri en bankinn sjálfur gerði ráð fyrir í nóvember.

Á árinu 2018 spáir bankinn nú 3,2% hagvexti, sem skýrist meðal annars af hraðari vexti innlendrar eftirspurnar, og fjárfestingar. Einnig komi inn aukin þjóðarútgjöld og slaki á aðhaldi hins opinbera, en þjóðarútgjöldin uxu um 7% að því er talið er á síðasta ári og stefnir í að vöxturinn verði 4,4% í ár.

Mikill innflutningur vinnuafls er sagður vega á móti hröðum vexti eftirspurnar og þar með framleiðsluspennunni sem náði hámarki í lok ársins 2016.  Telur bankinn að þrátt fyrir aukna undirliggjandi verðbólgu í byrjun þessa árs, en verðbólgan í janúar mældist 2,4% eftir að hafa verið 1,8% á síðasta ársfjórðungi ársins 2017, verði verðbólguvæntingarnar í samræmi við verðbólgumarkmiðin. Það þakkar bankinn minni hagvexti og áframhaldandi innflutningi vinnuafls.