Flugfélagið American Airlines hefur framlengt kyrrsetningu Boeing 737 Max 8 flugvéla sinna. Nær kyrrsetningin frá júní fram í miðjan ágústmánuð, að því er BBC greinir frá.

Ástæða framlengingar kyrrsetningarinnar, sem kemur fram í bréfi frá flugfélaginu, er sú að félagið vill „öðlast traust“ viðskiptavina sinna á hápunkti ferðatímabilsins.

Eins og mikið hefur verið fjallað um voru allar flugvélar af tegundinni Boeing 737 Max kyrrsettar í síðasta mánuði, í kjölfar tveggja mannskæðra slysa hjá Ethiopian Airlines og Lion Air.

Kyrrsetning 737 Max flota American Airlines er talin hafa áhrif á allt að 115 flug á dag.