Enn mælast Píratar með mest fylgi stjórnmálaflokka. Þó mælist fylgi þeirra tveimur prósentustigum lægra en í síðasta mánuði. Þetta kemur fram í Þjóðarpúls Gallup í dag.

Tæplega 33% segjast myndu kjósa Pírata ef gengið væri til kosninga nú.

Fylgi Framsóknarflokksins mælist tveimur prósentustigum hærra en í síðasta mánuði en 12% segjast myndu kjósa flokkinn nú.

Litlar breytingar eru á fylgi annarra stjórnmálaflokka. Tæplega 25% segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, ríflega 11% Vinstrihreyfinguna - grænt framboð, rúmlega 10% Samfylkinguna og tæplega 4% Bjarta framtíð.

Tæplega 5% segjast myndu kjósa aðra flokka en nú eiga sæti á Alþingi.

Ríflega 12% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og 9% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag.

Stuðningur við ríkisstjórnina eykst milli mánaða en næstum 39% þeirra sem tóku afstöðu segjast styðja hana.