Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins fengi Framsóknarflokkurinn 8,7% fylgi ef gengið yrði til kosninga nú. Yrði þetta niðurstaðan fengi flokkurinn sex þingmenn kjörna á Alþingi, en flokkurinn er nú með nítján þingmenn.

Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti stjórnmálaflokkurinn samkvæmt könnuninni og fengi nú 30,3% fylgi. Þar á eftir kemur Samfylkingin með 23,1%, Vinstri grænir með 13,1%, Björt framtíð með 10,6% og Píratar með 10,1%. Samfylkingin myndi bæta við sig flestum þingmönnum sem færu úr níu í fimmtán.

Sigrún Magnúsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir í samtali við Fréttablaðið að hugsanlega hafi framsóknarmenn ekki náð að koma skilaboðum áleiðis um allt það jákvæða sem gert hefur verið að undanförnu. „Mér finnst ótrúlega margt hafa gerst og merki sjást um bættan þjóðarhag á mörgum sviðum. Hér er lítið atvinnuleysi og ekki verið meiri kaupmáttaraukning lengi, jafnvel kannski ekki í sögunni,“ segir hún.