Fylgi Framsóknarflokksins lækkaði um tæp 2 prósentustig milli mánaða, úr 8,2% í 6,6% samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup fyrir septembermánuð.

Aðrar breytingar á fylgi flokka mældust ekki marktækar, en fylgi Vinstri Grænna lækkar úr 11,7% í 10,3%, og fylgi Pírata lækkar úr 12,5% í 11,5%. Fylgi Sjálfstæðisflokksins hækkar úr 22,7% í 24,6%, og fylgi Viðreisnar úr 10,1% í 10,7%.

Miðflokkurinn hækkar úr 8,7% í 9,8%, og Flokkur Fólksins úr 5,7% í 5,9%. Samfylkingin mælist með 19,3% fylgi og stendur í stað. Önnur framboð mælast með samanlagt 1,4% fylgi.

Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna er því 41,5%, og lækkar lítillega úr 42,6%, en samsetning þess breytist hinsvegar töluvert, þar sem hlutdeild Sjálfstæðisflokksins í samanlögðu fylgi fer úr 53% í 59%.

Stuðningur við ríkisstjórnina mælist 49% og fellur um 1% milli mánaða.