Þing Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle verður sett á morgun í Hörpu en rúmlega 1.800 þáttakendur frá yfir 50 löndum hafa skráð sig á þingið.

Meðal ræðumanna á opnunarfundi þingsins verða auk forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, Albert II Mónakófursti, forsætisráðherra Quebec Philippe Couillard, Artur Chilingarov sérstakur sendimaður Vladimirs Putins Rússlandsforseta, Carter Robers, forseti World Wildlife Fund og Okalik Eegeesiak formaður frumbyggjasamtaka, Inuit Circumpolar Council. Utanríkisráðherra Kína, Wang Yi, flytur ræðu á myndbandi.

Forseti Frakklands, François Hollande kemur einnig til þingsins og flytur siðdegis stefnuræðu þingsins.

Háskólinn í Reykjavík mun í dag halda nokkra atburði í tengslum við þingið, m.a. málþing um hafsvæði norðurslóða – Arctic High Seas Forum og málþing um orkuöryggi – Energy Security Forum.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og François Hollande forseti Frakklands munu halda sameiginlegan blaðamannafund í Hörpu á morgun, kl 17:30 en eftir fundinn mun Hollande funda með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra.