*

mánudagur, 23. október 2017
Innlent 1. júlí 2012 19:10

Freistandi að skattleggja útlendingana

Auðlindarentu er í dag aðeins að finna í útgerð. Næsti möguleiki er hugsanlega í orkuiðnaði en til þess þyrfti orkuverð að hækka.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Það er vissulega nóg til af íslenskum náttúruauðlindum segir Daði Már Kristófersson, auðlindahagfræðingur og dósent við hagfræðideild HÍ. Hann bendir í viðtali við Viðskiptablaðið á að auðlindarentu, og þar af leiðandi tekjumöguleika þjóðarinnar af skattlagningu rentunnar, sé í dag aðeins að finna í útgerð.

"Næsti möguleiki er hugsanlega í orkuiðnaði en fyrirtækin í þeim iðnaði eru ekki rekin í gróðaskyni í dag. Þau eru í opinberri eigu og það er einfaldlega bara mjög lágt orkuverð hér á landi. Þannig að það má svo sem segja að þjóðin njóti að einhverju marki hagræðis af auðlindinni í lægra orkuverði. En ef það á að breyta orkufyrirtækjunum svo þau skapi hagnað þá tekur það tíma. Og til þess að þarna verði til tekjustofn sem hægt væri að skattleggja þá þyrfti orkuverð að hækka.“

Og það vill væntanlega enginn?

"Það vill enginn hækka orkuverð við neytendur. Staðreyndin er hins vegar sú að íslenskir neytendur kaupa innan við 20% af orkunni sem við framleiðum. Það eru því raunverulega erlendir neytendur sem að mestum hluta myndu standa undir skattbyrðinni. Það er náttúrlega freistandi möguleiki að skattleggja þá og bæta frekar innlendu neytendunum upp það tap sem þeir þá kunna að verða fyrir. En skattlagningarpólitíkin er auðvitað mál út af fyrir sig og það er held ég hvergi rætt í þessum tillögum hvernig nákvæmlega á að ráðstafa peningunum. Það er aðeins nefnt að eðlilegt sé að nærsamfélög fái hluta hagnaðarins. En það er enginn að tala um það að skattbyrðin sé aukin samhliða þessu. Heldur geri ég ráð fyrir að hugmyndin sé að þessir skattar komi að einhverju leyti í staðinn fyrir aðra skatta sem eru meira bjagandi, eins og til dæmis tekjuskatt. "

Nánar er fjallað um málið í viðtali við Daða Má í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.