„Það eru sannarlega blikur á lofti, þetta þarf að taka alvarlega,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við Við­skiptablaðið þegar hún er spurð um þróunina í ferðaþjónustu. Hún segir samkeppnisstöðu Íslands sem ferðamannastaðar fara versnandi, að neyslumynstur ferðamannsins sé að breytast í þá átt að virðisauki ferðamannsins, sem þó kemur, fari minnkandi.

Nýlega bárust fregnir af því að stórt íslenskt ferðaþjónustufyrirtæki, Arctic Adventures, hafi fest kaup á Extreme Iceland. Helga segir að þarna sé sam­ þjöppun að eiga sér stað. „Væntanlega eigum við eftir að sjá fram á frekari samþjöppun á þessum markaði,“ segir hún.

Ferðaþjónusta er orðin ein helsta driffjöður íslensks atvinnulífs. Hagvöxtur í fyrra var 7,2% – sá mesti í áratug. Hagvöxturinn var að stórum hluta drifinn áfram af þjónustuútflutningi, sem jókst um ríflega 19% á milli ára og nam framlag hans til hagvaxtar 4,9%. Störfum í atvinnugreinum sem tengjast ferðaþjónustu hefur fjölgað mikið á síðustu árum. Á tólf mánaða tímabili frá maí 2016 til apríl 2017 fjölgaði launþegum hérlendis um 8.500 í heildina, þar af fengu um 3.400 störf í greinum tengdum ferðaþjónustu, eða um 40% af heildarfjölgun launþega.

Framtíð íslenskrar ferðaþjónustu er að nokkru leyti óljós um þessar mundir. Fyrirhuguð hækkun virðisaukaskatts hefur sætt gagnrýni og hafa Samtök ferðaþjónustunnar meðal annars kallað aðgerðina „reiðarslag“ fyrir ferðaþjónustuna. Þá hefur gengisþróun krónunnar einnig valdið áhyggjum en frá því í október 2015 hefur hún styrkst um 47%.

Greiningardeild Arion banka hefur til að mynda bent á styrkingu krónunnar. Telja sérfræð­ingar Arion að samdrátt í neyslu hvers ferðamanns og styttri dvalartíma megi rekja til gengis­ þróunarinnar. Vegna krónunnar áætlar Greiningardeildin að Íslandsferðin sé með öllu ríflega 50% dýrari nú en hún var árið 2012.

Þegar Helga er spurð út í aukna hagræðingu hjá fyrirtækjum ferðaþjónustunnar segir hún: „Menn reyna að leita allra leiða. Fyrirtækin eru búin að fjárfesta mikið í innviðum upp á síðkastið. Þá hafa launahækkanir verið miklar á síðustu misserum og svo kemur gengisstyrkingin. Maður gæti alveg ætlað að frekari sam­ þjöppun muni eiga sér stað á markaði, sem að einhverju leyti væri til að bregðast við ástandinu.“

Ísland kólnar

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF, segir að það sé ljóst að í sumar hafi það raungerst það sem þau hafi haft áhyggjur af, lausatraffíkin hafi ekki skilað sér. Hún bætir við að SAF hafi nýverið átt fund með bókunarsíðunni Expedia, sem er stór bókunaraðili á alþjóðavísu.

„Þar sáum við hitakort yfir bókunarstöðuna horft fram á við á móti sama tíma í fyrra. Bókunarstaðan er orðin miklu kaldari, hún er allt öðrum stað en í fyrra. Ísland er að kólna. Þetta eru mjög alvarlegar vísbendingar og er í línu við það sem fyrirtækin hafa verið að segja okkur,“ segir Helga.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .