Samkvæmt þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um fjármálaáætlun fyrir árin 2018 til 2022 mun skattur á ferðaþjónustu hækka. Í tillögunni er gert ráð fyrir að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu hækki úr 11% í 24%, sem er almennt þrep virðisaukaskatts, þann 1. júlí á næsta ári. Þann fyrsta janúar árið 2019 verður almenna þrepið síðan lækkað í 22,5%.

Meirihluti fjárlaganefndar leggur til í nefndaráliti sínu að þessari skattahækkun verði frestað. Vill meirihlutinn að í staðinn verði skoðaðir kostir og gallar þess að leggja á komugjöld.

Í þættinum Silfrinu í Ríkissjónvarpinu var rætt við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur ferðamálaráðherra. Sagði hún að ríkisstjórnin myndi skoða tillögur meirihluta fjárlaganefndar. Enn fremur sagðist ráðherra geta tekið undir það með nefndinni að tímasetning fyrirhugaðrar skattahækkunar væri ekki heppileg en hún er 1. júní á næsta ári.