Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt að umfjöllun Stundarinnar og breska blaðsins The Guardian um viðskipti sín við sjóð 9 í Glitni dagana eftir að fréttir bárust af vandræðum bankans hafi verið gerð til að koma höggi á sig fyrir komandi kosningar.

Upphaflega fékk Guardian, sem þekkt hefur verið fyrir að halla frekar til vinstri í breskri fjölmiðlaflóru, til sín gögnin á bak við fréttina 5. september, en Jon Henley blaðamaður á blaðinu segir að stefnt hafi verið að því að fréttin myndi birtast í byrjun nóvember.

„Það lá ekkert á, við vorum ein með upplýsingarnar,“ segir Henley í skeyti til RÚV um málið, en eftir að ríkisstjórnin sprakk og boðað var til kosninga var orðið ljóst að nú hefði málið meiri þýðingu.

Henley sagði að þá hefði hugsunin verið að fréttin færi út 16. eða 23. október en íslenskir starfsfélagar hans hefðu sagt að það gæti haft óeðlileg áhrif á kosningarnar ef hún færi svona stuttu fyrir þær út. „Þeir vildu birta þetta eins fljótt og hægt er, í síðasta lagi í vikunni sem lauk 2. október.“