365 og Fjarskipti hafa gert 44 mánaða samstarfssamning varðandi miðlun frétta úr Fréttablaðinu ef verður af samruna fyrirtækjanna tveggja. Er samningurinn talinn nauðsynlegur til þess að samruninn gangi í gegn, þar sem að Fjarskipti munu ekki hafa yfir að ráða fréttastofu af því tagi sem þarf til að sinna vefsíðunni Vísir.is þegar afhendingu eigna samkvæmt samningnum, gangi kaupi eftir.

Enn fremur kemur þar fram að 365 muni halda úti vefsíðu sem styðji við Fréttablaðið, en að hún verði minni en Vísir.is. Fjarskipti og 365 undirrituðu samning um kaup Fjarskipta, móðurfélags Vodafone, á öllum eignum og rekstri 365 miðla, að undanskildum eignum er varða útgáfu Fréttablaðsins á 3,2 milljarða króna.

Samruninn hefur verið undir smásjá Samkeppniseftirlitsins síðan í mars en hefur eftirlitið nú biðlað til almennings og óskað eftir sjónarmiðum fólks og fyrirtækja. Til þess að kynna sér málið nánar er hægt að lesa 152 blaðsíðna samrunaskrá sem að eftirlitið hefur birt.