Kjarabaráttuaðgerðir 60 af rúmlega 90 ljósmæðrum sem starfa í heimaþjónustu koma Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á óvart vegna lítils fyrirvara að því er Morgunblaðið greinir frá.

Fjöldi ljósmæðra sem aðstoða verðandi mæður á heimilum hafa ákveðið að leggja niður störf frá og með í dag vegna óánægju með kjaramál, en þær starfa sem verktakar fyrir Sjúkratryggingar Íslands.

Liggur samningur við ljósmæðurnar hefur legið fyrir ósamþykktur í ráðuneytinu frá því fyrir páska, en Svandís segist að öðru leiti ekki hafa heyrt frá ljósmæðrum, nema óbeint í gegnum fréttir af aðgerðum þeirra í fjölmiðlum. „Það voru tilteknir þættir í þessum samningsdrögum sem þörfnuðust viðbragða frá Landspítalanum og sjúkrahúsinu á Akureyri,“ segir Svandís.

Ljósmóðir segir allt að 9 mæður á dag verða fyrir áhrifum af aðgerðunum

Ellen Bára Valgerðardóttir ljósmóðir á Landspítala og sjálfstætt starfandi ljósmóðir í heimaþjónustu og ein þeirra sem tóku þátt í aðgerðunum segir að nýbakaðir foreldrar þurfi nú að dvelja lengur á spítalanum. Hún segir erfitt þó að fullyrða hve margar mæður verði fyrir áhrifum af aðgerðunum, en hún bendir á að það séu að meðaltali um 9 fæðingar á dag á Landspítalanum.

Hún segir einnig erfitt að segja til um hvort hætta skapist af aðgerðum sínum og hinna ljósmæðranna.„Það er [...] okkar hlutverk að fylgjast með nýburunum, gulu, þyngdaraukningu, brjóstagjöf o.fl. Margar konur eru líka veikari nú en áður, sumar þeirra hafa háan blóðþrýsting, meðgöngusykursýki og annað sem við höfum eftirlit með. Þær standa dálítið einar.“