Talsverð umfjöllun hefur verið um umskurð drengja í landinu að undanförnu í tilefni frumvarps Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um bann þar að lútandi í hegningarlögum að viðlagðri strangri refsingu, fangelsi í allt að sex ár. Um þetta sýnist sitt hverjum og nokkur hiti í umræðunni, sem má heita merkilegt í ljósi þess að sú siðvenja er afar fátíð hér á landi.

Síðastliðinn sunnudag sagði Kristín Sigurðardóttir á Ríkisútvarpinu frétt um þessi mál, sem byggðist á viðtali við liðlega fimmtugan mann, sem ungur að árum var umskorinn vestur í Bandaríkjunum, en sætti aðkasti fyrir vikið þegar fjölskyldan sneri aftur til Íslands. Sú reynsla var honum þungbær og því er hann eindreginn stuðningsmaður frumvarpsins (sem nýverið var vísað til umfjöllunar ríkisstjórnarinnar).

Nú er sjálfsagt að kynna í fjölmiðlum hin ýmsu sjónarmiðum þessi mál. Viðtal af þessu tagi hefði þó vafalaust átt betur heima í fréttaskýringaþætti, þar sem jafnframt hefðu komið fram fleiri sjónarhorn á það, úr fleiri áttum. Þarna ræddi hins vegar um tiltölulega langa umfjöllun í fréttatíma (rúmar þrjár mínútur), þar sem persónuleg reynsla einstaklings var kynnt líkt og þar væri um algilda eða almenna reynslu að ræða, sem á einhvern hátt trompaði allt annað og kallaði á veigamikla lagabreytingu, án þess að þó væru færð önnur rök fyrir því eða skýringar á því. Eða hinu af hverju ákall um slíkt hefði ekki heyrst fyrr, hvort leitað hefði verið eftir reynslu annarra Íslendinga, sem hefðu verið umskornir verið í bernsku og svo framvegis. Þeir eru sjálfsagt ekki mjög fjölmennur hópur, en ekki einstaklega fámennur hópur heldur, flestir fæddir í Bandaríkjunum, þar sem umskurður er lenska.

Við blasir að viðtalið var tekið að frumkvæði mannsins, en Kristín spurði hann m.a. með mæðusvip, að nú hefði hann reynt að ná tali af þingmönnum og ráðamönnum, hvernig það hefði gengið. „Það hefur ekki gengið. Þetta er viðtalið sem ég vildi eiginlega ekki gera,“ svaraði maðurinn. Þarna var það nú samt.

Nú er það auðvitað svo, að það er vafalaust erfitt að fá karla í sjónvarpsviðtal til þess að ræða um leyndarlim sinn og enginn dregur í efa raunir mannsins, sem rætt var við í fréttinni. En það liggur ekkert fyrir um að sú reynsla sé dæmigerð. Ekki frekar en aðgerðin sem gerð var á honum, því fram kom að hann var umskorinn hálfsársgamall, en vaninn er að gera hana nokkrum dögum eftir fæðingu.

Eftir stendur að þarna setti fréttastofa Ríkisútvarpsins fram innlegg í funheita, þverpólitíska umræðu, þar sem lokaorð eina viðmælandans voru „Niðurstaðan er sú að við verðum að koma þessu í gegn.“ Það er vandséð að í þessari frétt hafi fréttastofan uppfyllt hlutverk sitt og lagaskyldur um hlutlæga fréttamennsku og  kynningu á mismunandi skoðunum á málum, sem efst eru á baugi hverju sinni og almenning varða.

***

Verkfall ljósmæðra er annað fyrirferðarmikið fréttaefni liðinna vikna. Nú síðast kynntu ljósmæður áform um að sinna ekki yfirvinnu til þess að auka þrýsting á viðsemjendur sína . Yfirgnæfandi meirihluti ljósmæðra á Landspítala lýsti því yfir á mánudag að þær hygðust ekki taka aukavaktir fyrr en búið væri að semja við Ljósmæðrafélagið. Daginn eftir, 1. maí, tilkynntu ljósmæður hins vegar að þær neyddust til að afturkalla þá yfirlýsingu, vegna bréfs frá ríkisvaldinu um að aðgerðir þeirra væru ólöglegar.
Af því voru fluttar fréttir af flestum fjölmiðlum, ásamt viðtölum við forsvarsmenn ljósmæðra, sem kváðust bæði gapandi og orðlausar, en flest voru viðtölin þó í lengra lagi.

Gott og vel. En enginn miðill spurði hins augljósa, hvort félagið féllist ekki á þá skýringu fyrst aðgerðunum hefði verið aflýst. Varla er slíkum aðgerðum aflýst á sjálfum baráttudegi verkalýðsins bara vegna þess að verkalýðsfélaginu barst eitt lítið letters bréf frá viðsemjendunum. Og þá er fréttin ljóslega ekki sú að ljósmæður séu kjaftstopp, heldur hin að þær hafi fallið frá ólöglegum aðgerðum í kjarabaráttu.

Auðvitað er skiljanlegt að fjölmiðlar slái frekar upp upphrópunum málsaðila en að þeir hafi fallist á bréf úr ráðuneytinu, en miðlarnir verða samt að gæta hófs í því og beina sjónum að kjarna málsins, meginfréttinni.

***

Aðeins meira af baráttudegi verkalýðsins. Líkt og löng hefð er fyrir stigu verkalýðsforkólfar á stokk og messuðu yfir lýðnum á 1. maí. Margt sem þeir sögðu var frekar fyrirsjáanlegt, eins og tíðkast við slík ritúöl. Ekki þó allt, en líkast til hafa flestir veitt beinskeyttum yfirlýsingum Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR , athygli. Hann hótaði verkalýðsátökum upp úr áramótum, áhrifameiri en hér hefðu sést í marga áratugi. Það mætti t.d. gera með skæruverkföllum. Þá myndi kröfugerðin ekki aðeins snúast um hefðbundnar kjarabætur, heldur kerfisbreytingar , vaxtalækkun, aðgerðir gegn verðtryggingu og sérstakri lagasetningu á leigufélög .

Frá þessu greindu velflestir fjölmiðlar skilmerkilega, enda ekki á hverjum degi sem slík herhvöt er flutt á útifundum, fáir efast um að hugur fylgi máli og engum blöðum um að fletta, að afleiðingarnar gætu orðið mjög afdrifaríkar. Aftur á móti má vel spyrja hvort fjölmiðlar hefðu ekki átt að ganga frekar á Ragnar um grundvöll og framkvæmd slíkra aðgerða. Það þurfti ekki að gera samdægurs, það er sjálfsagt að eftirláta verkalýðsforkólfum sviðið á 1. maí og láta ræðurnar tala sínu máli. En þegar rykið sest er sjálfsagt að spyrjast frekar fyrir.

Ekki síst á það kannski við um kröfur um lagasetningu á þriðja aðila, en í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur er sérstaklega vikið að slíku. „Ef tilgangur vinnustöðvunarinnar er að þvinga stjórnarvöldin til að framkvæma athafnir, sem þeim lögum samkvæmt ekki ber að framkvæma, eða framkvæma ekki athafnir, sem þeim lögum samkvæmt er skylt að framkvæma, enda sé ekki um að ræða athafnir, þar sem stjórnarvöldin eru aðili sem atvinnurekandi.“

Það er erfitt að trúa því að formanni stærsta verkalýðsfélags landsins sé ókunnugt um það, sem vekur spurningar hvort vísvitandi sé verið að skipuleggja ólöglegar aðgerðir, nú eða hvort þarna sé einfaldlega verið að blöffa. En fjölmiðlar hefðu átt að spyrjast fyrir um það.